Hin mikla sátt vinstri manna

Allt frá því fyrstu Íslendingarnir hófu líf sitt hér á landi eftir að hafa flúið ofríki evrópskrar yfirstéttar hafa landsmenn nýtt sér auðlindina miklu er býr í hafinu í kringum landið. Sjávarútvegur er grundvallarútflutningsgrein Íslands og skapar þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur og fólkinu í landinu mýmörg störf. Í hinum mikla hraða samfélagsins undanfarin ár má segja að við Íslendingar höfum fjarlægst rætur okkar og misst sjónar á því hvar og hvernig raunveruleg verðmæti verða til. Lykillinn að því að endurreisa efnahag landsins fellst einfaldlega í því að eyða minna og skapa meiri gjaldeyristekjur. Þar leikur sjávarútvegurinn lykilhlutverk.


Í ljósi þess vekur stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum, sem felst í fyrningu aflaheimilda í nafni réttlætis og sáttar, mikla athygli. Stefnan hefur framkallað mikla óvissu og óöryggi í greininni sem er síst það sem grundvallaratvinnugreinin þarf á að halda.  Þá hafa sveitarstjórnir um allt land sent frá sér ályktanir gegn því að fyrningarleið verði farin og lýsa í því sambandi yfir áhyggjum vegna atvinnuástands í bæjarfélögunum og afkomu byggðanna. Ef horft er til viðbragða vinstri flokkanna vegna þeirra áhyggjuradda, sem eru engin, er ljóst að ekki á að hlusta á þá sem starfa í greininni og byggja alla sína afkomu á að starfsumhverfi hennar sé stöðugt. Hafa vinstri flokkarnir fjarlægst upprunann svo mjög að ekki liggi lengur fyrir í þeirra huga hver grundvallarundirstaða íslensks atvinnulífs er? Eða er þeim einfaldlega sama þó fjöregginu sé fórnað svo lengi sem stefnan komist í framkvæmd, sama hvað það kostar íslenskar byggðir?


Auðlindin í hafinu er takmörkuð og sagan segir okkur að þegar takmörkuð verðmæti eru til skiptanna verða alltaf einhverjir sem telja sig ekki fá næg gæði í sinn hlut. Úthlutun takmarkaðra gæða verður alltaf umdeild, sama hvaða kerfi er notað. Réttlæti og sátt er því ekki í augsýn, sérstaklega ekki á þeim forsendum sem vinstri flokkarnir leggja fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Háttvirtti þingmaður. Ríkisstjórnin hefur enga ástæðu til að hlaupa upp til handa og fóta útaf hávaða í fáeinum útgerðarmönnum og búrtíkum þeirra í sveitarstjórnum og Sjálfstæðisflokknum. Í öllum skoðanakönnunum um kvótakerfið, sem framkvæmdar hafa verið síðustu ár, hefur afstaða þjóðarinnar verið afgerandi: 80 prósent landsmanna vilja afnema kefið.

Þú segir að Íslendingar hafi á sínum tíma flúið ofríki evrópskar yfirstéttar. Það má rétt vera. En það er enn ljósara, að Íslendingar kunna ekki að meta yfirgang og ránsskap íslenskrar yfirstéttar. Það voru samantekin ráð auðvaldsina að gera sér hægt um vik og reyna að stela fiskveiðiauðlindinni af réttmætum eigendum hennar, íslensku þjóðinni; það eina sem ræningjunum hefur vantað uppá er að fá lögformlegan eignarrétt yfir þýfinu. Það sem ríkisstjórnin er ætlar að gera, háttvirtur þinmaður, er að taka ránsfenginn af illþýðinu og koma því í hendur réttra eigenda.

Slóðin eftir þann flokk manna, sem sölsað hefur fiskveiðiauðlindina að mestu undir sig, er ófögur. Fjöldi byggðarlaga, sem byggt hafa afkomu sína og tilvist á útgerð og fiskvinnslu, hafa verið að drabbast niður síðasta aldarfjórðunginn og sum þeirra eru því miður í rúst eftir aðför kvótakóngana að þeim. Gagnvart þeim vinnubrögðum hefur lítið heyrst í sveitarstjórnarmönnum Sjálfstæðisflokksisn, enda er þeim ljúfara að styðja hagsmuni fárra auðlindarþjófa en fólksins sem býr í sjávarbyggðunum og skapað hefur þau verðmæti hörðum höndum sem umræddir auðlindarþjófar hafa byggt svikamyllu sína á.   

Jóhannes Ragnarsson, 21.1.2010 kl. 19:56

2 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Það er því miður sama hvort það eru peningar eða fiskur, við kunnum lítt með það að fara. Þannig hefur auðnum verið kipp út úr útgerðinni af þeim einstaklingum sem komist hafa yfir kvóta, en skuldirnar skildar eftir í fyrirtækjunum eða kannski frekar í bönkunum. Síðan hafa kvótakóngar haslað sér völl á öðrum sviðum og því miður hafa þeir margir sóað auðnum í vonlaus fyirtæki og sumir meira að segja í útgáfu gjaldþrota dagblaða!

Íslendingar eru í eðli sínu trillukarlar og græðgi kvótakónga í kvóta smábáta hefur nánast gengið af þessari stétt dauðri og dregið starfs- og lífsvilja úr þjóðinni.

Kvótakóngar hafa gengið um með svipuðum hætti og bankarnir sem gátu ekki einu sinni látið sparisjóðina í friði.....

Það er m.a. af ofangreindum ástæðum sem meirihluti þjóðarinnar er á móti kvótakerfinu eins og það er rekið í dag. Svo einfalt er það frá sjónahóli landkrabba!

Ómar Bjarki Smárason, 21.1.2010 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband