Eftirlitsnefnd á rangri braut

Sveitarfélögin í landinu hafa ekki farið varhluta af þeim efnahagsþrengingum sem nú ríkja. Mörg þeirra hafa náð að grípa til aðgerða til að bregðast við stöðunni og liðug stjórnsýsla þeirra hefur gert það að verkum að þær aðgerðir hafa gefist vel. Að mínu mati mætti ríkið læra mjög margt af því hvernig sveitarfélögin hafa brugðist við fjármálakreppunni.

Eftirlitsnefnd sveitarfélaga beitir þeirri aðferðafræði að bera saman árstekjur sveitarfélaganna við skuldir sem eru til margra ára t.d. vegna leigugreiðslna og lífeyrisskuldbindinga, og kemst að þeirri niðurstöðu að staðan sé alvarleg. Það skekkir hins vegar myndina að eftirlitsnefndin tekur ekki tillit til eigna sveitarfélaganna en þær hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á heildarmyndina. Eignir sveitarfélaganna skapa í mörgum tilvikum tekjur eða þær er hægt að selja til að standa undir afborgunum framtíðarskuldbindinga.

Svo dæmi sé tekið er hægt að kíkja á ársreikning sveitarfélagsins Voga en í fljótu bragði sýnist það dæmi líta þannig út að árstekjur eru um 570 millj.kr., skuldir eru 2,4 ma. króna sem lítur ekki vel út í samanburði eftirlitsnefndarinnar. Hins vegar á sveitarfélagið umtalsverðar eignir þar á meðal 1.6 ma. króna inni á bók og ekki fæst séð annað en það sveitarfélag komi til með að ná að standa í skilum með afborganir í framtíðinni.

Sveitarfélag getur haft ýmsar ástæður fyrir því að greiða ekki þegar í stað niður skuldir. Í yfirlýsingu sem Vestmannaeyjabær hefur sent frá sér vegna bréfs eftirlitsnefndar kemur fram að sveitarfélagið hafi ekki fengið að greiða niður ákveðin lán vegna þess að lánadrottinn hafi ekki viljað taka við greiðslu. Í öðrum tilvikum getur verið óskynsamlegt að greiða upp lán sem eru á hagstæðum kjörum.  

Hér er ekki verið að fullyrða að ekki séu til sveitarfélög sem eru í alvarlegum vanda. Hins vegar gengur ekki að eftirlitsaðilar noti aðferðafræði sem skekkir heildarmyndina.

Ég tel mikilvægt að sveitarfélögin verði virkari í efnahagsstjórn landsins þar sem þær ákvarðanir sem teknar eru á borði sveitarfélaganna hafa mikil áhrif á hagstærðir. Sveitarfélögin þurfa að setja sér fjármálareglur sem takmarka útgjaldavöxt og skuldsetningu milli ára og þörf er á auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga enda bera báðir aðilar sameiginlega ábyrgð á efnahagsstjórn landsins.

 


mbl.is Alvarleg staða sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftirlitsnefndin starfar samkvæmt lögum og sérstakri reglugerð. Henni er ætlað að meta fjárhagsstöðu sveitarfélaga með tilliti til 5 lykiltalna eins og lesa má í reglugerðinni. Starfsmenn nefndarinnar eru fagfólk á sviði endurskoðunar. nefndin mun væntanlega tjá sig um fjárhagsstöðu Eyjanna að loknum fundi með bæjarstjóra og fjármálastjóra. Benedikt Jóhannesson hjá Talnakönnun gerir árlega úttekt á fjárhagsstöðu sveitarfélaga en í síðustu úttekt var Snæfellsbær í fyrsta sæti. Lykiltölur Benedikts taka hins vegar mið af fyrirtækjum í einkarekstri þannig að könnun hans verður að skoða í því ljósi. þróa þarf líkan sem tekur mið af sérstökum rekstrarskilyrðum íslenskra sveitarfélaga.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband