Hvað hefur Alþingi gert varðandi skuldavanda heimilanna?

Undanfarna mánuði hefur því ítrekað verið haldið fram að stjórnmálamenn geti ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Ég leyfi mér að vera ósammála því enda er það mín reynsla af þingstörfunum að vel sé hægt að vinna að stórum verkefnum á þverpólitískum grundvelli. Við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á að flokkunum beri að vinna saman að því að finna lausnir á skuldavanda heimilanna og höfum stutt þær lagabreytingar sem hafa snúið að þeim málum. Þær hafa hins vegar flestar snúið að úrræðum til handa þeim sem komnir eru í verulegan greiðsluvanda en enn skortir á aðgerðir sem miða að því að fækka þeim sem þurfa á slíkum úrræðum að halda. Það ætti að vera meginmarkmið stjórnvalda.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu þess efnis í síðustu alþingiskosningum að lækka greiðslubyrði af húsnæðislánum um 50% í 3 ár en lengja lánin sem því nemur. Tillögunni var ætlað að skapa meira svigrúm fyrir lántakendur til að standa við aðrar skuldbindingar og að stjórnvöld nýttu tímann til að vinna að uppbyggingu efnahagslífsins, auka hagvöxt, skapa aðstæður fyrir aukin atvinnutækifæri og gera með því hverjum einstaklingi kleift að auka ráðstöfunartekjur sínar.

Síðastliðið haust samþykkti Alþingi lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins þar sem lögfest voru ákvæði um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Við sjálfstæðismenn studdum lagabreytinguna enda var þar byggt á þeirri hugmynd sem við kynntum í kosningabaráttunni þó að útfærslan væri á annan veg en við hefðum farið fram með.

Við afgreiðslu þess lagafrumvarps lögðum við sjálfstæðismenn mikla áherslu á mikilvægi þess að fulltrúar allra flokka ynnu saman að útfærslu frekari úrræða vegna skuldavanda heimilanna. Félagsmálaráðherra skipaði í kjölfarið starfshóp þingmanna allra flokka sem starfaði allan sl. vetur með það að markmiði að kortleggja ágalla þeirra úrræða sem til staðar eru en jafnframt ræddi hópurinn frekari úrræði almenns eðlis og átti ég sæti í þeim hópi f.h. þingflokksins.

Í mars kynnti ríkisstjórnin síðan á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu aðgerðapakka sem svaraði að mati ríkisstjórnarinnar öllum spurningum varðandi skuldavanda heimilanna. Jafnframt var tilkynnt að um frekari aðgerðir til handa heimilunum yrði ekki að ræða. Félagsmálaráðherra lagði í kjölfarið fram nokkur lagafrumvörp sem félagsmálanefnd Alþingis fékk til umfjöllunar en ég sit í þeirri nefnd ásamt Pétri H. Blöndal. Í stuttu máli sagt tók nefndin þessi frumvörp og skrifaði upp á nýtt. Í nefndinni fór fram gríðarlega umfangsmikil vinna, þvert á flokka með það að markmiði að bæta greiðsluvandaúrræði til handa þeim sem eru komnir í mikinn vanda og afraksturinn var lög um greiðsluaðlögun, lög um tvær fasteignir og umboðsmann skuldara. Ein veigamesta breytingin fellst í því að úrvinnsla mála er nú hjá umboðsmanni skuldara í stað þess að umsóknir fari allar í gegnum dómstólana, en sú leið var mjög tímafrek og óskilvirk. Sjálfstæðismenn tóku virkan þátt í  vinnu nefndarinnar  og studdu framgang mála en við tókum fram að enn skorti á aðgerðir sem hefðu það markmið að fækka þeim einstaklingum sem þurfa að leita inn í þessi úrræði.

Í félags- og tryggingamálanefnd er nú unnið að smíði frumvarps sem er ætlað að laga enn frekar þau úrræði sem þegar hafa verið lögfest enda voru málin unnin í miklum flýti í sumar og við mjög sérstakar aðstæður. Ég hef fulla trú á því að nefndinni auðnist í sameiningu að bæta löggjöfina enn frekar. Tryggja þarf að úrvinnsla mála gangi hratt og vel fyrir sig hjá umboðsmanni skuldara en reynsla hefur ekki enn komið á það hvort svo sé.

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband