Tillögur Sjálfstæðisflokksins

Með hliðsjón af mikilvægi þess að bæta stöðu heimila og fyrirtækja, endurheimta tiltrú á íslenskt efnahagslíf, skapa sameiginlegan skilning á mikilvægi brýnustu aðgerða, tryggja hvata til atvinnusköpunar og hagvaxtar og skapa skilyrði til þess að Íslendingar verði að nýju í hópi samkeppnishæfustu þjóða heims ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða:

Heimilin.

a. Rýmka verulega skilyrði þess að heimili geti lækkað greiðslubyrði húsnæðislána.

b. Myndaður verði sérfræðingahópur sem fjalli um leiðir til þess að lækka höfuðstól fasteignaveðlána í þeim sérstöku tilvikum þegar almenn greiðsluerfiðleikaúrræði duga ekki. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra stjórnmálaflokka.

c. Stimpilgjöld verði afnumin til að auðvelda fólki að njóta bestu kjara við endurfjármögnun lána.

d. Spornað verði við atvinnuleysi, m.a. með fjölbreyttri uppbyggingu í orkufrekum iðnaði, skynsamlegri auðlindanýtingu, með skattalegum hvötum og hagstæðu umhverfi til nýsköpunar.

Fyrirtækin.

e. Settar verði verklagsreglur við endurskipulagningu skulda atvinnulífsins sem tryggja sanngirni og gagnsæi og þar með jafna meðferð skuldara. Tryggja þarf að hvatar til árangurs verði ekki slævðir. Haft verði að leiðarljósi að samkeppnisstöðu verði ekki raskað.

f. Mótuð verði skýr stefna, byggð á gagnsæi, jafnræði og hagkvæmni um það hvernig unnið verði að sölu þeirra eignarhluta í fyrirtækjum sem ríkisbankarnir leysa til sín. Þessi stefnumörkun verði gerð í hópi sem allir stjórnmálaflokkar eigi fulltrúa í.

Fjármál hins opinbera.

g. Tryggja þarf að framkvæmd fjárlaga ársins 2009 valdi ekki viðbótarhalla. Upplýsingar um stöðu ríkisfjármála og framkvæmd fjárlaga verði kynntar Alþingi. Skuldastaða ríkisins verði kortlögð sem og vaxtabyrðin næstu árin og hvernig endurgreiðslum skulda verður háttað.

h. Sett verði fram raunhæf áætlun í ríkisfjármálum sem miðast við að á þremur árum verði hallinn án vaxtagjalda horfinn og ríkisfjármál verði sjálfbær. Leggja þarf áherslu á að stækka skattgrunna í stað þess að auka álögur. Miklar álögur og röng forgangsröðun við niðurskurð letur efnahagslífið og frestar batanum. Brýnt er að tryggja breiða samstöðu um niðurskurðaraðgerðir í ríkisfjármálunum.   

i. Skoðað verði í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að gera kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna til að afla ríkissjóði frekari tekna. Þannig verði inngreiðslur í lífeyrissjóð skattlagðar í stað útgreiðslna eins og nú er. Þessi aðgerð gæti aflað ríkissjóði allt að 40 milljarða kr. viðbótartekjum án þess að skerða ráðstöfunartekjur launþega og eftirlaunaþega.

j.  Settar verði fjármálareglur fyrir ríki og sveitarfélög til að auka samhæfingu og styðja sem best við peningastefnuna.

Fjármálamarkaðir.

k.  Lokið verði við stofnun hinna nýju banka. Tryggt verði að áhætta vegna gjaldeyrisjafnaðar, vaxtamunar og eignamats endi ekki hjá hinum nýju bönkum og þar af leiðandi hjá skattborgurum, m.a. með gerð skiptasamninga milli gömlu og nýja bankanna.

l. Mótuð verði stefna um framtíð ríkisbankanna, skráningu á markað og sölu eignarhluta til almennings. Nú þegar verði hafist handa við að setja reglur um dreifða eignaraðild fjármálafyrirtækja. Jafnhliða þarf að móta eigendastefnu ríkisins í því skyni að tryggja fagmennsku og hagkvæmni og koma í veg fyrir pólitíska spillingu. Þessi vinna verði framkvæmd í hópi sem allir stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa í.

m. Endurskoða þarf reglur á fjármálamarkaði sem og reglur um gagnsæi varðandi eignarhald fyrirtækja og réttindi minni hluthafa til að auka traust, gagnsæi og tryggja heilbrigða viðskiptahætti, auk þess sem settar verði reglur sem hamla krosseignartengslum og viðskiptum eigenda. Taka ber tillit til þeirrar endurskoðunar sem nú fer fram alþjóðlega á slíkum reglum. Áfangaskýrsla og stöðugreining liggi fyrir eigi síðar en 1. október 2009.

Peningamálastjórnin.

n. Endurskoðun peningastefnunnar, athugun á framtíðarfyrirkomulagi gjaldeyrismála og upptöku annarrar myntar, þar með talið könnun á kostum og göllum aðildar að Myntbandalagi Evrópu, verði framkvæmd af utanaðkomandi sérfræðingum. Þessari vinnu verði lokið fyrir 1. október 2009.

o. Breytt verði reglum um gjaldeyrishöft þannig að nýjar erlendar fjárfestingar falli ekki undir höftin.

p. Þróuð verði úrræði til að minnka umfang verðtryggingar og auka framboð óverðtryggðra lána.

Vegna mikilvægis framangreindra aðgerða skulu þær allar, nema d-, m- og n-liður, hafa komið til framkvæmda fyrir 15. júlí næstkomandi.

Þingsályktunin í heild er hér. 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram efnahagstillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Með hliðsjón af reynslunni afþakka ég allar efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins!

Auðun Gíslason, 9.6.2009 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband