25.8.2009 | 10:05
Fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi
Þingályktunartillaga mín og Tryggva Þórs um aðgerðir til að hvetja til fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi er enn órædd og óafgreidd á sumarþinginu. Tillagan var lögð fram 19. júní sl. en með henni er því beint til ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir aðgerðum til að auðvelda fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Gríðarlega mikilvægt er að þeim fjárfestum sem hingað koma sé vel tekið og öll umgjörð um erlendar fjárfestingar sé skýr. Við þurfum á slíkum fjárfestingum að halda og því eru það mikil vonbrigði að þingsályktunartillagan fáist ekki rædd í þinginu.
Tillaga til þingsályktunar
um aðgerðir til að hvetja til fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi.
Flm.: Unnur Brá Konráðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum til að auðvelda fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi:
a. setningu rammalöggjafar um fjárfestingar erlendra aðila,
b. gerð áætlunar um orkuafhendingu til a.m.k. fimm ára,
c. endurskoðun lagaákvæða um ferli mats á umhverfisáhrifum.
Vegna mikilvægis framangreindra aðgerða skulu þær hafa komið til framkvæmda eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi.
Greinargerð.
Aldrei í sögu lýðveldisins hefur verið meiri þörf fyrir atvinnuuppbyggingu og gjaldeyrisskapandi iðnað en einmitt nú. Erlendir fjárfestar hafa sýnt mikinn áhuga á því að koma að ýmsum verkefnum hér á landi sem tengjast flest orkufrekum iðnaði en hann myndar eins og kunnugt er fjölda beinna og afleiddra starfa, m.a. hjá tækni- og þekkingarfyrirtækjum og einyrkjum. Erlendir fjárfestar reka sig hins vegar á ýmsa tálma í íslenskri stjórnsýslu sem hindra það að verkefnin komist af hugmyndastigi á framkvæmdastig. Þannig er ekki til rammalöggjöf um erlendar fjárfestingar, orkuafhending er óviss og mat á umhverfisáhrifum er tafsamt ferli og oft og tíðum tilviljanakennt. Brýnt er að taka á þessu sem fyrst til að liðka fyrir því að erlent fjármagn streymi til landsins til að byggja upp atvinnulífið til framtíðar og skapa þjóðinni auknar gjaldeyristekjur. Hlutverk stjórnvalda er að skapa þá umgjörð sem þarf til að hvetja erlenda fjárfesta til atvinnusköpunar en ekki að setja upp óþarfa hindranir sem letja erlenda fjárfestingu. Stjórnsýslan má ekki þvælast fyrir þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífsins það seinkar endurreisninni.
Rammalöggjöf um erlendar fjárfestingar.
Yfir 100 þjóðir bjóða innlendum og erlendum aðilum ívilnanir til að auka atvinnu, laða að þekkingu og nýja atvinnuvegi sem örva jafnframt nýsköpun og þróun í landinu. Nefnd á vegum iðnaðarráðuneytisins hefur skilað tillögum um að smíðuð verði rammalöggjöf um ívilnanir hliðstætt því sem þekkist í öllum helstu samkeppnislöndum okkar. Slík löggjöf fæli í sér að fjárfestingarsamningar þyrftu ekki að fara fyrir Alþingi heldur væri hægt að útfæra einstök frávik í reglugerð. Það flýtir ferlinu til muna frá því sem nú er. Brýnt er að hraða setningu rammalöggjafar í þeim tilgangi að tækifærin gangi þjóðinni ekki úr greipum. Í því sambandi er mikilvægt að undanþiggja nýja erlenda fjárfestingu núgildandi gjaldeyrishöftum.
Undanþágur á virðisaukaskatti vegna innflutnings tölvubúnaðar fyrir gagnaver og staðfesting á að fyrirtækjaskattar verði ekki hækkaðir umfram tiltekin mörk eru nýleg en mikilvæg dæmi um atriði sem gætu skipt sköpum um árangur á þessu sviði. Þá má einnig nefna aðstoð og þátttöku við þjálfun íslenskra starfsmanna í nýjum atvinnugreinum svo og ívilnanir tengdar rannsóknar- og þróunarkostnaði erlendra fyrirtækja sem kjósa að staðsetja sig hér á landi sem dæmi um mikilvægar ívilnanir.
Orkuafhending.
Mikill óvissuþáttur við ákvörðun fyrirtækja um að staðsetja sig á Íslandi er afhending orku. Ekki er í dag hægt með neinni vissu að tiltaka áætlaðar dagsetningar orkuafhendingar sem er algerlega óviðunandi fyrir fjárfesta. Það virðist með öllu óljóst hver stefna ríkisstjórnarinnar er í orkumálum. Mikilvægt er að fyrir liggi skýrar upplýsingar um það hvert framboð af orku sé fyrir þá erlendu fjárfesta sem hafa áhuga á að staðsetja sig hér á landi og að áætlaður afhendingartíma orkunnar liggi fyrir.
Þá er beintenging við orkuver án tengingar við Landsnet í einstökum tilfellum mjög afgerandi samkeppnisþáttur, sérstaklega þegar um ræðir minni fyrirtæki. Hvatt er til þess að gjaldskrá Landsnets fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki verði tekin til endurskoðunar, sbr. fram komnar tillögur þar um til nefndar um endurskoðun raforkulaga.
Umhverfismat.
Ferlið við umhverfismat virðist í einstökum tilfellum mun lengra og þokukenndara en víðast hvar annars staðar. Þetta hefur m.a. stuðlað að því að fjárfestar hafa horfið með gríðarlega mikilvæg atvinnutækifæri til annarra landa Ísland hefur ekki verið vinsamlegt erlendum fjárfestum. Tímafrestir varðandi umhverfismat eru ekki í öllum tilvikum virtir af hálfu umhverfisráðuneytis og virðist í einhverjum tilvikum um pólitíska íhlutun að ræða. Sem dæmi má nefna að virkjanaáformum í neðri hluta Þjórsár er frestað vegna afskipta umhverfisráðherra af skipulagsmálum sveitarfélaga á svæðinu. Annað dæmi er tilviljanakennd ákvörðun um að mögulegt álver á Bakka og orkuver á Þeistareykjum skyldu fara í sameiginlegt umhverfismat en það seinkaði framkvæmdum og gæti hugsanlega leitt til þess að þær verði endanlega slegnar af. Því er mikilvægt að ráðast í heildarendurskoðun á umhverfismatsferlinu í þeim tilgangi að gera það skilvirkara og gagnsærra. Þá ætti að skilgreina ákveðin landsvæði undir iðnaðarstarfsemi þar sem forskoðun á umhverfisáhrifum yrði unnin og jafnvel horft til þess að meta svæðin með tilliti til álags frá tilteknum atvinnugreinum. Slíkur undirbúningur gæti stytt umhverfismatsferlið um 5070% eins og reynsla Kanadamanna sýnir.
Niðurlag.
Stærsta verkefni stjórnvalda nú um stundir er að endurreisa íslenskan efnahag. Atvinnulífið byggjum við Íslendingar upp með því að treysta grunnstoðirnar og sækja fram, byggja upp í orkufrekum iðnaði, nýta auðlindir landsins, laða að erlenda fjárfesta og skapa eðlileg skilyrði fyrir rekstur og atvinnulíf. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa þau skilyrði að atvinnulífið geti blómstrað en ekki að bregða fæti fyrir þau tækifæri sem í augsýn eru eins og oft virðist vera raunin.
Mörg mál bíða hausts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.