24.9.2009 | 09:02
Er ég óvinur þjóðarinnar? (grein birt í Morgunblaði í dag)
Forseti bæjarstjórnar Árborgar, Jón Hjartarson, sem jafnframt er helsti leiðtogi Vinstri grænna á Suðurlandi, fer mikinn í grein sinni hér í Morgunblaðinu á sunnudag. Með tilvitnun í sjálft Nóbelsskáldið segir hann þjóðina bera ábyrgð á eigin óförum þar sem hún hafi sjálfviljug valið að fela Sjálfstæðisflokknum að vera leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum um áratuga skeið. Með því hafi þjóðin sáð í akur óvinar síns. Kveðjurnar úr Árborg eru ansi kaldar til þjóðarinnar, kjósenda Sjálfstæðisflokksins og okkar sem störfum fyrir hann.
Það er rétt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá stofnun hans árið 1929 verið kjölfesta í íslenskum stjórnmálum. Kjósendur hafa fylkt sér um stefnu flokksins, stefnu sem felur í sér þann einfalda boðskap að einstaklingurinn njóti þess frelsis að hann geti með framtaki sínu skapað sér sín eigin tækifæri. Stefnu þar sem lagt er upp með að stétt vinni með stétt að því að efla samfélagið, því þannig skapist sterk heild sem allir njóti góðs af. Stefnu sem efast um að ríkisvaldið sé best til þess fallið að leysa öll verkefni og vandamál, en er jafnframt umburðarlynd gagnvart mismunandi lífsháttum. Þessi gildi hafa ávallt átt ríkan hljómgrunn hjá íslensku þjóðinni og hefur flokkurinn notið fylgis úr öllum stéttum samfélagsins. Nokkrir tugir þúsunda íslendinga eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn og vinna af heilindum innan hans að því sameiginlega markmiði okkar allra að skapa bætt samfélag og aukin lífsgæði til handa landsmönnum öllum. Allan þennan stóra hóp fólks kýs forseti bæjarstjórnar í Árborgar að kalla óvin íslensku þjóðarinnar.
Gífuryrði af þessu tagi eru vart svaraverð og bera þess helst merki að viðkomandi sé ósáttur yfir því að hans eigin flokkur kemur ekki nógu vel út úr skoðanakönnunum. Á þeirri staðreynd er sú einfalda skýring að VG nær ekki að fylgja stefnu flokksins í viðamiklum málum, þrátt fyrir að sitja í ríkisstjórn. Því taka kjósendur eftir.
Í dag ríkir lítið traust til íslenskra stjórnmálamanna. Við sem störfum í stjórnmálum verðum að leggja okkar af mörkum til þess að bæta úr því. Traustið verður ekki endurbyggt af auglýsingastofum í Reykjavík eða nýjum slagorðum. Það verður að endurvinna með nýjum aðferðum, gagnsægi, ábyrgð og röggsemi að leiðarljósi.
Það gerum við ekki með hrakyrðum og niðurlægjandi athugasemdum um kjósendur og ákvarðanir þeirra í kjörklefanum. Ég hvet því Jón til að taka sér tak, horfa fram á við og leggja fram einhverjar lausnir á þeim gríðarstóru verkefnum sem framundan eru í íslensku samfélagi. Af nógu er að taka. Eitt er víst að við náum ekki árangri ef stjórnmálamenn hífa sig ekki upp úr skotgröfunum. Við þurfum að bera virðingu hvert fyrir annars skoðunum. Það er trú mín að allir sem starfa í stjórnmálum gera það til að bæta íslenskt samfélag, hvort sem þeir starfa í VG eða Sjálfstæðisflokknum.
Íslendingar geta hins vegar, hér eftir sem hingað til, treyst því að hin gömlu góðu gildi sjálfstæðisstefnunnar eru í fullu gildi og gleymast ekki hvort sem flokkurinn er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við sem störfum í forystusveit Sjálfstæðisflokksins munum leggja okkar lóð á vogaskálarnar til þess að endurvinna það traust sem hefur glatast og byggja upp íslenskt samfélag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.