Að drepa þjóð úr leiðindum?

Allt frá því að Icesave-málið kom fyrst inn á Alþingi í upprunalegri mynd á sumarþingi hefur stjórnarandstaðan staðið í baráttu við að knýja fram gögn í málinu. Upphaflega átti að keyra málið í gegn án þess að þing né þjóð fengju að sjá sjálfa samninganna sem liggja til grundvallar ríkisábyrgðinni. Því er ekki að leyna að þessi leyndarhyggja ríkisstjórnarflokkanna hefur sett sinn svip á málið frá upphafi og skapað tortryggni.

 

Ríkisábyrgð á Icesaveskuldbindingunum nemur háum fjárhæðum sem komandi kynslóðir koma því miður til með að standa straum af. Eftir að fyrirvörum Alþingis við ríkisábyrgðina hefur verið kastað fyrir róða með nýju viðaukasamningunum sem ríkisstjórnin hefur undirritað, getur sú staða komið upp að ábyrgðin verði óendanleg.

Til að standa straum af árlegum vaxtagreiðslum af Icesave þarf skatttekjur 79.000 einstaklinga sem er stór hluti allra launþega í landinu, líkt og Þór Sari hefur bent á hér í þinginu. Ekki er hægt að nálgast ákvörðun um slíkar ráðstafanir af léttuð og því gefur auga leið að þingmenn verða að hafa ítarleg gögn í höndum ætli þeir að styðja slíka ráðstöfun.

Ég á reyndar erfitt með að átta mig á rökstuðningi þeirra sem ætla sér að styðja frumvarp ríkisstjórnarinnar enda taka stjórnarliðar lítinn þátt í umræðunum. Ég giska þó á að stjórnarþingmenn ætli að fylgja forystu flokkanna – í blindni myndu einhverjir segja.

 

Við í stjórnarandstöðunni höfum verið ásökuð um að standa í málþófi hér í þinginu án þess að hafa nokkuð til málana að leggja og án þess að hafa upp á aðrar lausnir málsins að bjóða. Sumir ganga svo langt að segja okkur vera að drepa þjóðina úr leiðindum. Ég er algerlega ósammála slíkum málatilbúnaði og hvet þá sem fullyrða slíkt að horfa á umræðurnar. Af tvennu illu er betra að leggja langar og strangar umræður um eitt stærsta mál lýðveldissögunnar á þjóðina en að samþykkja óyfirstíganlega skuldabyrði til handa komandi kynslóðum að óyfirveguðu máli. Eða var einhver hér á þingi kosinn sérstaklega til að vera skemmtilegur?


mbl.is Fundað utan þingsals
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband