Að horfast í augu við verkefnin framundan

Skrifaði pistil á Deigluna í morgun um mikilvægi þess að hefjast handa við þau verkefni sem fyrir liggja. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fjallaði um það í viðtali á mbl.is í gær að menn yrðu að fara að átta sig á því hversu alvarlega staðan er og fara að tala um það. Góður punktur hjá fjármálaráðherranum og gott að hann er áttaður á þessari stöðu. Kannski ætti hann að byrja á því að ræða við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn og athuga hvort ekki væri rétt að forgangsraða í þágu þeirra brýnu verkefna sem liggja fyrir í stað þess að eyða sumarþinginu í að tala um ESB.

Bæjarstjórinn stendur sig vel

Að standa vörð um atvinnumál í því sveitarfélagi sem maður býr í er ein mikilvægasta skylda sveitarstjórnarmannsins. Sveitarstjórnarmenn í sjávarbyggðum víðast hvar um landið senda nú frá sér harðorðar ályktanir gegn fyrningarleið ríkisstjórnarflokkanna. Til slíkra viðbragða grípa sveitarstjórnarmenn ekki að gamni sínu. Gagnrýni bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum á fullan rétt á sér enda ekkert eðlilegt við það að stjórnmálaflokkarnir hlusti ekki á röksemdir og áhyggjur kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum landsins.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa í ræðu og riti fjallað um mikilvægi þess að viðhafa samráð um stórar ákvarðanir. Það er frekar hjákátlegur málflutningur þegar horft er á viðbrögðin við áhyggjum sveitarstjórnarmanna. Ef aðilar með ólíkar skoðanir og hagsmuni eiga að koma  sameiginlega að slíkri vinnu er mikilvægasta reglan að bera virðingu fyrir skoðunum annarra og byggja gagnrýni sína á rökum. 

Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því verkefni að endurreisa efnahag landsins.  Við verðum að setja atvinnumál í forgang enda er ljóst að ef atvinnulífinu gengur vel þá gengur heimilunum vel. Í þeirri vinnu er mikilvægt að styðja þær grunnstoðir sem enn standa sterkar og skapa okkur útflutningstekjur. Þar er sjávarútvegurinn fremstur í flokki. Kvótakerfið er ekki fullkomið og leita ber leiða til að sníða af því helstu agnúanna en nú í miðri efnahagslægð er ekki tíminn til að steypa greininni í stöðnun óvissunnar sem vissulega er þegar farið að sjá stað vegna málflutnings stjórnarliða.

Áfram Elliði, þú stendur þig vel!


mbl.is Harma viðbrögð Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega stutt í að siglt verði í Landeyjahöfn

Það er gott að vita af því að vel gengur við að koma á mikilvægum samgöngubótum til handa Eyjamönnum. Með tilkomu Landeyjahafnar skapast gríðarlega mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila í Eyjum og á landi. Verkefnið hefur gengið vel frá upphafi og allar líkur eru á því að tímaáætlanir standist sem þýðir að við siglum milli Landeyja og Eyja eftir rúmt ár. Bylting fyrir Eyjamenn sem og alla landsmenn sem þá geta á einfaldan hátt skroppið yfir og skoðað þá mögnuðu náttúru sem Eyjarnar hafa að geyma. Ekki skemmir fyrir að Eyjamenn eru upp til hópa skemmtilegt fólk, góðir gestgjafar og sérstaklega jákvæðir. Nú þarf bara að stöðva áform vinstri stjórnarinnar um fyrningu aflaheimildanna til að tryggja áframhaldandi öflugt atvinnulíf í Eyjum.
mbl.is Fyrsta ferð Herjólfs að Bakkafjöruhöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að huga að umbótum í opinberri stjórnsýslu

Umbætur í ríkisrekstri eru mikilvægt verkefni sem ætti sífellt að vera á borði ráðamanna hverju sinni. Bendi á gamla grein frá mér sem birtist á vefritinu Deiglunni á því herrans ári 2004 sem mér sýnist enn standa fyrir sínu.  


mbl.is Þörf á nýsköpun í opinberri þjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að virða sögu íslensku þjóðarinnar

Við setningu Alþingis er hefð að þingmenn gangi fylktu liði til messu í Dómkirkjunni.  Sú hefð hefur valdið talsverðu fjaðrafoki að undanförnu hjá ákveðnum hópi fólks sem ekki gat hugsað sér að taka þátt í athöfninni.

Frá því Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og kvað upp úr með að allir Íslendingar skyldu taka kristna trú, hafa ein lög og einn sið, þá hafa tengsl ríkis og kirkju verið sterk. Að náttúruöflunum sjálfum frátöldum má vel draga þá ályktun að enginn einn þáttur hafi átt meiri þátt í  að móta íslenskt samfélag en kristin trú. Því er eðlilegt að þess sjáist stað í þeim hefðum sem skapast hafa í kringum helstu hátíðarstundir þjóðarinnar, þar á meðal setningu löggjafarþingsins.

Það er ekkert hættulegt við það að mæta í messu stöku sinnum, jafnvel í söfnuði sem maður tilheyrir ekki sjálfur. Það er hollt fyrir sál, hjarta og dómgreind nýkjörinna þingmanna að eiga kyrrláta stund í sameiningu þvert á flokka áður en þingstörfin hefjast með þeim skoðanaágreiningi sem þar skapast. Athöfnin snýst einmitt ekki um sannfæringu þingmanna eða sérhagsmuni heldur virðingu Alþingis og undirstrikar þá staðreynd að þingmenn eru í raun allir saman í einu liði sem hefur það markmið að vinna að þjóðarhag.

Setning Alþingis einkennist af hefðum sem hafa mótast í íslensku samfélagi í aldanna rás. Kristnin er hvort sem okkur líkar betur eða verr þáttur sem hefur átt ríkan þátt í að móta okkar samfélag. Með því að mæta til boðaðrar dagskrár við þingsetningu þá sýnir maður sögu íslensku þjóðarinnar virðingu. Enginn sem kjörinn er á þing er að mínu viti stærri en íslenska þjóðin og er því miður að viðkomandi þingmenn hafi notað tilefnið til að koma sjálfum sér að í fjölmiðlum í stað þess að sýna þjóðinni og hefðum hennar virðingu.  


mbl.is Óþarfi að blanda Guði inn í þinghaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liðug stjórnsýsla

Vissulega er skuldastaða sveitarfélaganna slæm og ástæða til að bregðast við hratt og vel. Nú reynir á stærsta kost íslenskra sveitarfélaga sem er sá að vegna smæðar stjórnsýslunnar eru þau tiltölulega fljót að aðlagast aðstæðum. Sveitarfélögin hafa frá því í október náð að sýna ábyrgð og festu varðandi fjármálastjórn á miklum óvissutímum. Nú þarf einfaldlega að endurskipuleggja reksturinn til næstu ára og ég treysti því góða fólki sem skipa sveitarstjórnir landsins fyllilega í það verkefni.
mbl.is Staða sveitarfélaga verri en áætlað var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn bætt á áhyggjur landsmanna

Á óvissutímum líkt og nú eru í íslensku samfélagi myndast jarðvegur fyrir alls kyns hugmyndir að breytingum. Í ljósi þessa dustaði Samfylkingin rykið af fyrningarleiðinni,  kosningamáli sínu frá 2003 sem gengur út á það að allar aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verða innkallaðar eins fljótt og auðið er og að hámarki á 20 árum. VG keyrði sína kosningabaráttu á svipaðri leið. 

 

Nú er það svo að mörg bæjarfélög hringinn um landið byggja sína tilveru á sjávarútvegi og afkomu hans. Hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna vekja miklar áhyggjur hjá þeim fjölmörgu einstaklingum sem byggja sína afkomu á greininni og eru síst til þess fallnar að stuðla að þeirri endurreisn íslensks efnahagslífs sem ríður á að ráðast í. 

Íslensk þjóð þarf ekki á því að halda að ráðamenn þjóðarinnar stjórnist af poppúlisma og  hefndargirnd gegn vinnandi fólki. Sjávarútvegurinn er meginstoð íslensks atvinnulífs og okkar aðal útflutningsgrein. Því ber að styrkja greinina með ráð og dáð í stað þess að ráðast í stórskaðlegar aðgerðir með tilheyrandi óvissu og óafturkræfum afleiðingum.

 

 


mbl.is Lýsa vilja til að endurskoða fiskveiðistjórnunarlögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn þingflokksins

Illugi Gunnarsson var í dag kjörinn formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þá var Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti lista okkar Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, kjörin varaformaður. Auk þess var Einar K. Guðfinnsson kjörinn ritari. Sendi ég þeim hér með formlegar hamingjuóskir.


Smjörklípa ráðlausrar ríkisstjórnar

Nú hefur ráðlausa ríkisstjórnin eytt 10 dögum (lagað) í að ræða um ESB aðild. Skýrt var í kosningabaráttunni að VG og Samfylking eru á öndverðum meiði í málinu. Samstarf flokkanna byggir því augljóslega ekki á málefnasamstöðu. Komandi þing mun að öllum líkindum snúast um þetta mál.

Þeir sem ekki eru innilokaðir í Norrænahúsinu á samningafundum átta sig á því að þau málefni sem brenna á hinum venjulega Íslendingi snúast ekki um aðild að ESB. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða til að koma atvinnulífinu í gang, það er áhrifaríkasta leiðin til að koma heimilunum til aðstoðar. Það er því með öllu óskiljanlegt að svo miklu púðri sé á þessum tímapunkti eytt í vangaveltur um aðildarumsókn nema ef vera skyldi tilraun til að slá ryki í augu fólks vegna þess að flokkarnir sem sitja við samningaborðið koma sér heldur ekki saman um ráð vegna efnahagslægð arinnar. Einhverntíman hefði einhver kallað þetta smjörklípu.

 

Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því verkefni að endurreisa efnahag landsins. Við það verkefni er þörf á hugrökku fólki sem leggur fram lausnir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá stofnun flokksins sett atvinnumál í forgang enda er ljóst að ef atvinnulífinu gengur vel þá gengur heimilunum vel.

 

Atvinnuleysi er ekki þolandi og við Sjálfstæðismenn munum aldrei sætta okkur við að það verði viðvarandi. Sjálfstæðisflokkurinn lagði í kosningabaráttunni fram tillögur sem eru raunhæf leið til að skapa fleiri störf. Það gerum við með því að byggja upp í orkufrekum iðnaði, nýta auðlindir landsins og skapa eðlileg skilyrði fyrir rekstur og atvinnulíf. Í kringum orkufrekan iðnað, öflugan landbúnað og sterkan sjávarútveg skapast fjöldi afleiddra starfa hjá tækni- og þekkingarfyrirtækjum og einyrkjum auk tækifæra í nýsköpun.

Barátta okkar Íslendinga næstu mánuði felst í því að skapa fleiri störf í landinu. Evrópusambandið mun ekki koma okkur til bjargar, við þurfum að gera þetta sjálf.  Það verður erfitt og mun taka á. Framtak og framsýni einstaklinganna er sterkasta vopnið í þeirri baráttu.

 

 

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband