Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Grípum tækifærin

Loksins hefur umsókn Orf  Líftækni verið afgreidd á jákvæðan hátt. Starfsemi fyrirtækisins er mjög merkileg og metnaðarfull. Í dag er gríðarlega mikilvægt að við sem þjóð grípum þau tækifæri sem fyrir hendi eru til að byggja upp gjaldeyrisskapandi verkefni. Góður áfangi næst með þessu skrefi.

  


mbl.is Leyfi veitt til ræktunar á erfðabreyttu byggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir út að slá

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag:
 
Það er fallegt í íslenskum sveitum þegar sólin skín, fuglarnir syngja og grasið sprettur.  Þrátt fyrir alla fegurðina skapar hún ekki ein og sér verðmæti til handa bóndanum sem landið byggir. Til að sjá sér og sínum farborða verður hann að fara út að slá og lifa af landinu sínu. Að sama skapi verður íslensk þjóð að skapa verðmæti úr þeim gæðum sem til staðar eru. Lykillinn að bættri stöðu þjóðarbúskaparins er að skapa meiri gjaldeyristekjur og afla meira en eytt er.
 
Sterkar stoðir
Við Íslendingar megum aldrei gleyma því að þrátt fyrir erfiða stöðu þá eigum við margar sterkar stoðir sem við munum byggja á til framtíðar. Aldurssamsetning þjóðarinnar er hagstæð, menntunarstig hátt og grunnstoðir samfélagsins eru sterkar. Sú gnótt af hreinu ferskvatni sem við búum að er auðlind sem ekki skal vanmeta. Þá eigum við mikið af góðu ræktunarlandi og enn meira af ónýttu ræktanlegu landi sem kemur til með að nýtast okkur vel í framtíðinni svo sem við ræktun repju til lífdíselframleiðslu, ræktunar erfðabreytts byggs til lyfjagerðar og svo mætti lengi telja. Sjávarútvegurinn er sterkur enda fiskurinn okkar sá besti í heimi en gæta þarf að því að hlúa að greininni í stað þess að ráðast að henni með fyrningarhugmyndum.
 
Erlendar fjárfestingar
Orkan í iðrum jarðar er gríðarleg auðlind og mikil tækifæri eru til frekari gjaldeyrissköpunar í orkufrekum iðnaði. Erlendir fjárfestar hafa áhuga en hlutverk stjórnvalda er að skapa þau skilyrði að hægt sé að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Meginmarkmiðið í þeim efnum er að stjórnsýslan þvælist ekki fyrir þegar kemur að því að hrinda verkefnum af stað líkt og gerðist þegar Sunnlendingar þurftu að sá á bak stórri mannaflsfrekri kísilverksmiðju, sem til stóð að staðsetja í Ölfusi, til Kanada þar sem umhverfisráðherrann Þórunn Sveinbjarnardóttir treysti sér ekki til að gefa út yfirlýsingu um að ráðuneytið myndi geta afgreitt umhverfismat vegna verkefnisins innan lögbundins tímafrests. Við höfum ekki efni á fleiri slíkum "fyrirgreiðslum" af hálfu stjórnvalda. Seinagangur núverandi umhverfisráðherra við afgreiðslu aðalskipulags í tengslum við virkjanir í neðri hluta Þjórsár vekur þó ugg um að fleiri tækifæri gangi okkur úr greipum.
 
Í hnotskurn
Nú sem aldrei fyrr ríður á að stjórnvöld átti sig á þeirri skyldu sinni að skapa skilyrði sem liðka fyrir þeim tækifærum sem til staðar eru til uppbyggingar í íslensku atvinnulífi. Það dugir ekki að horfa á fallega sprettuna bylgjast í sunnanvindinum. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum, fara út að slá og koma ilmandi töðunni í hús.

Fögnum frelsi og fullveldi


Enn og aftur höldum við þjóðhátíðardaginn hátíðlegan. Íslendingar búa sig upp, skunda ásamt börnum sínum skrýddum blöðrum og þjóðfánanum til mannfagnaða í bæjum og sveitum og fagna lýðveldisstofnuninni.  Gleði og frelsistilfinning einkennir daginn.
 
Í dag fögnum við 17. júní við erfiðari efnahagsaðstæður en nokkur hefði getað ímyndað sér. Bölmóður og heimsendaspár dynja yfir okkur alla dag í fjölmiðlum og virðist ekkert lát á og allt virðist verða óhamingju Íslands að vopni. 
 
Ég legg til að við sýnum lýðveldinu okkar þá virðingu að í dag leyfum við okkur að vera glöð og fagna frelsi okkar. Það eru ekki sjálfsögð gæði að vera fullvalda þjóð.
 
Á óvissutímum er hugmyndafræðilegt svigrúm fyrir allskyns breytingar. Afstaða landsmanna til ýmissa grundvallarmála hefur sveiflast gríðarlega undanfarna mánuði allt eftir því hvaða mál eru á örmum fjölmiðlamanna þann daginn. Dæmi um slíkt mál er hugsanleg Evrópusambandsaðild Íslendinga.  Aðild að ESB þýðir afsal á veigamiklum þáttum fullveldis okkar til Brussel og er markmið fullveldisframsals þjóðanna að byggja upp nýtt stórríki.
 
Er svo komið að landsmönnum þyki rétt að parkera hinu unga merki lýðveldisins undir Evrópufána og gefast upp á sjálfstæðinu? Eru landsmenn í alvöru á þeirri skoðun að stofnun Íslenska lýðveldisins hafi verið tilraun sem misheppnaðist?
 
Ég tel svo ekki vera og tel hagsmunum íslensku þjóðarinnar betur borgið utan ESB en innan. Við megum aldrei missa sjónir á heildarhagsmunum Íslensku þjóðarinnar til lengri tíma þó á móti blási í núinu. Að mínu viti er aðild að Evrópusambandinu  heldur ekki sú töfralausn á núverandi vanda sem margir talsmenn aðildar halda fram. Slík töfralausn er ekki til heldur þurfum við öll að leggjast á eitt við að vinna okkur út úr ástandinu.
mbl.is Það er kominn 17. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju

Sendi Ásgerði innilega hamingjuóskir. Að taka að sér framkvæmdastjórn sveitarfélags er mikill heiður og stórskemmtilegt starf. Gangi henni sem allra best.
mbl.is Áskorun að taka við starfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri til að efna fögur fyrirheit

Birti pistil á Deiglunni í morgun í tilefni þess að mánuður er frá því þing kom saman.


Upplýst ákvörðun?

Við okkur Íslendingum blasir það stóra verkefni að endurreisa efnahag landsins. Ég hef þá staðföstu trú að það takist og byggi þá skoðun mína á því að styrkleikar samfélagsins og sóknarfæri eru mikil eins og ég fjallaði um hér á blogginu í gær. 

Á leið okkar um lægðina sem við nú erum stödd í þarf að taka margar erfiðar ákvarðanir. Mikilvægt er að þær séu vel ígrundaðar og enn mikilvægara að ráðamenn þjóðarinnar hafi kjark til að taka þær. Innan skamms mun ríkisstjórnin leggja fram þingmál um ríkisábyrgð vegna Icesave samningsins  og þá er það okkar sem þar sitjum að taka afstöðu. 

Málið er í alla staði ömurlegt. Kjarni þess er hins vegar sá að enginn alþingismaður getur tekið afstöðu til þess hversu slæmur eða "glæsilegur" samningurinn er nema fram verði lögð öll gögn sem þingheimur þarf til að geta tekið upplýsta ákvörðun í málinu.

Það fyrsta sem mér var kennt af foreldrum mínum varðandi peningamál var að skrifa ekki upp á ábyrgðir eða skuldir sem ég væri ekki borgunarmaður fyrir. Ég tel að sú fjármálaregla sé enn í fullu gildi.


mbl.is Krefjast þess að þingmenn fái aðgang að samkomulaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóknarfæri framtíðarinnar

Þrátt fyrir óvissu og flókin viðfangsefni vegna stöðu efnahagsmála í núinu megum við aldrei gleyma því að við eigum margar sterkar stoðir sem við komum til með að byggja á til framtíðar.

  • Aldurssamsetning þjóðarinnar er mjög hagstæð
  • Menntunarstig er hátt
  • Grunnstoðir samfélagsins eru sterkar
  • Við eru rík af auðlindum; vatni, landi, fiski og orku

Lykillinn að því að ná árangri er að byggja á þessum stoðum, sækja fram og skapa meiri gjaldeyristekjur. Hlutverk stjórnvalda er að skapa þá umgjörð sem þarf til að atvinnulífið nái að rétta úr kútnum og vaxa. Meginmarkmiðið í þeim efnum er að stjórnsýslan þvælist ekki fyrir þegar kemur að því að hrinda verkefnum af stað líkt og gerðist þegar Sunnlendingar þurftu að sá á bak stórri mannaflsfrekri kísilverksmiðju sem til stóð að staðsetja í Ölfusi til Kanada þar sem umhverfisráðherrann Þórunn Sveinbjarnardóttir treysti sér ekki til að gefa út yfirlýsingu um að ráðuneytið myndi geta afgreitt umhverfismat vegna verkefnisins innan lögbundins tímafrests. Við höfum ekki efni á fleiri slíkum "fyrirgreiðslum" af hálfu stjórnvalda.


mbl.is Styrkir innlenda matvælaframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að fá gesti, en það þarf að vera til eitthvað með kaffinu

Ég var málshefjandi í dag í þeim umræðum á Alþingi sem fram fóru í morgun um atvinnumál og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að við eigum fjölmörg tækifæri til að byggja upp sterkt og öflugt atvinnulíf. Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir atvinnuuppbyggingu á Íslandi en einmitt nú. Erlendir fjárfestar hafa vissulega sýnt mikinn áhuga á að koma að ýmsum verkefnum hér á landi sem flest öll tengjast orkufrekum iðnaði. Fjárfestar reka sig hins vegar á ýmsar hindranir í stjórnsýslunni. Brýnt er að taka á þessu sem fyrst til að liðka fyrir því að erlent fjármagn streymi til landsins.

Hindranirnar felast helst í því að óvissa ríkir um það hvernig skattumhverfið kemur til með að líta út hér á landi, einnig er umhverfismatsferli of langt og óljóst og tímafrestir varðandi matið ekki virtir af umhverfisráðuneytinu sem hefur valdið því að stór verkefni hafa runnið okkur úr greipum.

Stærsti óvissuþátturinn er þó sá að ekki er ljóst hvort einhver orka sé til staðar til að koma verkefnunum á koppinn. Virkjanaáform í neðri hluta Þjórsár eru í fresti vegna afskipta umhverfisráðherra af skipulagsmálum sveitarfélaga á svæðinu. Hugmyndum orkufyrirtækjanna um aðkomu krónubréfaeigenda að fjárfestingum s.s. vegna Búðarhálsvirkjunar fá ekki undirtektir eða svör í fjármálaráðuneytinu. Þá er með öllu óljóst hver stefna ríkisstjórnarinnar er í orkumálum.

Verkefnið okkar er að endurreisa efnahag landsins. Það gerum við með því að byggja upp í orkufrekum iðnaði, nýta auðlindir landsins og skapa eðlileg skilyrði fyrir atvinnulífið. Brýnt er að stjórnsýsla hins opinbera greiði fyrir uppbyggingu atvinnulífsins og ekki síst aðkomu erlendra fjárfesta hér á landi.


mbl.is Mikil traffík í iðnaðarráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillögur Sjálfstæðisflokksins

Með hliðsjón af mikilvægi þess að bæta stöðu heimila og fyrirtækja, endurheimta tiltrú á íslenskt efnahagslíf, skapa sameiginlegan skilning á mikilvægi brýnustu aðgerða, tryggja hvata til atvinnusköpunar og hagvaxtar og skapa skilyrði til þess að Íslendingar verði að nýju í hópi samkeppnishæfustu þjóða heims ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða:

Heimilin.

a. Rýmka verulega skilyrði þess að heimili geti lækkað greiðslubyrði húsnæðislána.

b. Myndaður verði sérfræðingahópur sem fjalli um leiðir til þess að lækka höfuðstól fasteignaveðlána í þeim sérstöku tilvikum þegar almenn greiðsluerfiðleikaúrræði duga ekki. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra stjórnmálaflokka.

c. Stimpilgjöld verði afnumin til að auðvelda fólki að njóta bestu kjara við endurfjármögnun lána.

d. Spornað verði við atvinnuleysi, m.a. með fjölbreyttri uppbyggingu í orkufrekum iðnaði, skynsamlegri auðlindanýtingu, með skattalegum hvötum og hagstæðu umhverfi til nýsköpunar.

Fyrirtækin.

e. Settar verði verklagsreglur við endurskipulagningu skulda atvinnulífsins sem tryggja sanngirni og gagnsæi og þar með jafna meðferð skuldara. Tryggja þarf að hvatar til árangurs verði ekki slævðir. Haft verði að leiðarljósi að samkeppnisstöðu verði ekki raskað.

f. Mótuð verði skýr stefna, byggð á gagnsæi, jafnræði og hagkvæmni um það hvernig unnið verði að sölu þeirra eignarhluta í fyrirtækjum sem ríkisbankarnir leysa til sín. Þessi stefnumörkun verði gerð í hópi sem allir stjórnmálaflokkar eigi fulltrúa í.

Fjármál hins opinbera.

g. Tryggja þarf að framkvæmd fjárlaga ársins 2009 valdi ekki viðbótarhalla. Upplýsingar um stöðu ríkisfjármála og framkvæmd fjárlaga verði kynntar Alþingi. Skuldastaða ríkisins verði kortlögð sem og vaxtabyrðin næstu árin og hvernig endurgreiðslum skulda verður háttað.

h. Sett verði fram raunhæf áætlun í ríkisfjármálum sem miðast við að á þremur árum verði hallinn án vaxtagjalda horfinn og ríkisfjármál verði sjálfbær. Leggja þarf áherslu á að stækka skattgrunna í stað þess að auka álögur. Miklar álögur og röng forgangsröðun við niðurskurð letur efnahagslífið og frestar batanum. Brýnt er að tryggja breiða samstöðu um niðurskurðaraðgerðir í ríkisfjármálunum.   

i. Skoðað verði í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að gera kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna til að afla ríkissjóði frekari tekna. Þannig verði inngreiðslur í lífeyrissjóð skattlagðar í stað útgreiðslna eins og nú er. Þessi aðgerð gæti aflað ríkissjóði allt að 40 milljarða kr. viðbótartekjum án þess að skerða ráðstöfunartekjur launþega og eftirlaunaþega.

j.  Settar verði fjármálareglur fyrir ríki og sveitarfélög til að auka samhæfingu og styðja sem best við peningastefnuna.

Fjármálamarkaðir.

k.  Lokið verði við stofnun hinna nýju banka. Tryggt verði að áhætta vegna gjaldeyrisjafnaðar, vaxtamunar og eignamats endi ekki hjá hinum nýju bönkum og þar af leiðandi hjá skattborgurum, m.a. með gerð skiptasamninga milli gömlu og nýja bankanna.

l. Mótuð verði stefna um framtíð ríkisbankanna, skráningu á markað og sölu eignarhluta til almennings. Nú þegar verði hafist handa við að setja reglur um dreifða eignaraðild fjármálafyrirtækja. Jafnhliða þarf að móta eigendastefnu ríkisins í því skyni að tryggja fagmennsku og hagkvæmni og koma í veg fyrir pólitíska spillingu. Þessi vinna verði framkvæmd í hópi sem allir stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa í.

m. Endurskoða þarf reglur á fjármálamarkaði sem og reglur um gagnsæi varðandi eignarhald fyrirtækja og réttindi minni hluthafa til að auka traust, gagnsæi og tryggja heilbrigða viðskiptahætti, auk þess sem settar verði reglur sem hamla krosseignartengslum og viðskiptum eigenda. Taka ber tillit til þeirrar endurskoðunar sem nú fer fram alþjóðlega á slíkum reglum. Áfangaskýrsla og stöðugreining liggi fyrir eigi síðar en 1. október 2009.

Peningamálastjórnin.

n. Endurskoðun peningastefnunnar, athugun á framtíðarfyrirkomulagi gjaldeyrismála og upptöku annarrar myntar, þar með talið könnun á kostum og göllum aðildar að Myntbandalagi Evrópu, verði framkvæmd af utanaðkomandi sérfræðingum. Þessari vinnu verði lokið fyrir 1. október 2009.

o. Breytt verði reglum um gjaldeyrishöft þannig að nýjar erlendar fjárfestingar falli ekki undir höftin.

p. Þróuð verði úrræði til að minnka umfang verðtryggingar og auka framboð óverðtryggðra lána.

Vegna mikilvægis framangreindra aðgerða skulu þær allar, nema d-, m- og n-liður, hafa komið til framkvæmda fyrir 15. júlí næstkomandi.

Þingsályktunin í heild er hér. 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram efnahagstillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarið er tíminn

Gott að vita að grasspretta sé góð á Suðurlandi enda veitir ekki af góðum fréttum á þessum síðustu tímum. Í sumarbyrjun fyllist loftið angan og ilmi vonarinnar um góða tíð og þægindi í sólaryl. Ég vona svo sannarlega að sumarið færi okkur fréttir af ákvörðunum varðandi ríkisfjármálin og endurreisn bankanna þó ekki verði þær allar þægilegar. Nú er þörf á hugrökku fólki sem þorir að taka ákvarðanir.  

Ég óska Óla vini mínum á Eyri og öðrum bændum góðrar lukku í heyskapnum framundan. Megi uppskera sumarsins verða okkur öllum til gæfu.


mbl.is Sláttur hefst í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband