Sjálfbær sjávarútvegur án ríkisstyrkja (grein í Morgunblaði í dag)

  Samfélag sem byggir á sterkum sjávarútvegi  sem með sjálfbærum veiðum skapar þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur, þiggur ekki ríkisstyrki og skapar örugga atvinnu fyrir fjölda fólks þykir víðast hvar um heiminn öfundsvert.  Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur ásamt því harðduglega fólki sem starfar í greininni, skapað slíkar aðstæður í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir það hefur kerfið frá tilkomu þess verið umdeilt og hafa skoðanakannanir sýnt að meirihluti þjóðarinnar er á móti kerfinu enda keppast sumir stjórnmálamenn við að draga úr trúverðugleika þess.  Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að núverandi kerfi sé ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk er það besta fyrirkomulagið sem völ er á. Andstæðingar þess hafa ekki getað mótmælt þeirri staðreynd með fullnægjandi rökum enda hafa engar heildstæðar raunhæfar tillögur um annað betra kerfi litið dagsins ljós.  

Háskaleg hugmyndafræði

Stefna ríkisstjórnarflokkanna um að hefja ríkisvæðingu aflaheimildanna 1. september nk. byggir á háskalegri hugmyndafræði sem ekki hefur verið hugsuð til enda. Viðbrögð sveitarstjórnarmanna, útgerðarmanna, sjómanna og annarra sem starfa í greininni hafa ekki látið á sér standa og hafa öll verið á einn veg. Sú vísbending um útfærslu fyrningarleiðarinnar sem birtist í skötuselsfrumvarpi sjávarútvegsráðherra sem nú er til umfjöllunar á Alþingi staðfestir þá skoðun. Leiðin virðist vera sú að auka aflaheimildir þvert á ráðleggingar vísindamanna og þar með er sjálfbærni kerfisins fórnað. Arðseminni verður miðað við umræðuna af hálfu vinstri manna einnig fórnað líkt og strandveiðarnar sanna. Auðlindin í hafinu er takmörkuð og sagan segir okkur að þegar takmörkuð verðmæti eru til skiptanna verða alltaf einhverjir sem telja sig ekki fá næg gæði í sinn hlut. Úthlutun takmarkaðra gæða verður alltaf umdeild, sama hvaða kerfi er notað. Réttlæti og sátt er því ekki í augsýn, sérstaklega ekki á þeim forsendum sem vinstri flokkarnir leggja fram.

Í hnotskurn

Íslenskur  sjávarútvegur er burðarás í Íslensku atvinnulífi og ein sterkasta stoðin sem við þurfum nú sem aldrei fyrr á að halda til að styrkja íslenskan efnahag til framtíðar. Við eigum sjálfbæran sjávarútveg sem skilar arði án ríkisstyrkja. Ég er stolt af þeirri staðreynd og legg til að við leyfum okkur að njóta þess að vera ábyrg fiskveiðiþjóð sem er öðrum fyrirmynd á þessu sviði.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Atli Hermannsson.

Sæl Unnur Brá. Ég vil taka það fram að ég er ekki áhugamaður um fyrningu aflaheimilda - þar sem mér finnst aðalatriðið ekki vera hverjir handhafar heimildanna séu -  heldur að auðlyndin sé nýtt á sem hagkvæmastan hátt. Á því er gríðarlegur misbrestur. Fiskveiðiráðgjöfin hefur verið út úr öllu korti eins og árangurinn af “uppbyggingu” fiskstofnanna ber með sér. Þá er nýstingastefnan, samsetning flotans og skefjalaus misnotkun rangra gerða veiðarfæra svo sem eins og botntrolla og annarra dregina veiðarfæra á viðkvæmun svæðum glæpur sem verður að stöðva.

Fyrir allan almenning snýst umræðan um fiskveiðistjórn nær eingöngu um handhafana, eignarhaldið á auðlyndinni og hvort útgerðin eigi að borga auðlyndagjald eða fáeinar krónur í veiðigjald sem engu skiptir. Þetta eru þvílík aukatriði þegar haft er í huga að margir bæði lærðir og leiknir hafa bent á með sannfærandi rökum að  unnt sé að láta auðlindina gefa allt að 60 milljarða meira í útflutningstekjur á ári. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég gæti sent þér yfir 100 síður sem ég hef skrifað um sjávarútvegsmál síðan 2002. Þá verð ég að viðurkenna að maður lýjast á því að þurfa að endurtaka sig í hvert skipti sem nýr aðili kveður sér hljóðs og horfið mjög þröngt á málið.         

"Samfélag sem byggir á sterkum sjávarútvegi  sem með sjálfbærum veiðum skapar þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur, þiggur ekki ríkisstyrki."

Hvað er sjómannaafslátturinn annað en óbeinn ríkisstyrkur - rekstur Hafrannsóknarstofnunar og Landhelgisgæslunar - eða Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Fiskistofa sem kostar tæpan milljarð árlega?

"Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að núverandi kerfi sé ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk er það besta fyrirkomulagið sem völ er á."

Yfir 80% landsmanna er óánægður með gjafakvótakerfið. Í Færeyjum er svokallað dagakerfi. Unnur Brá; þó þú leitaðir með logandi ljósi í eina viku þá held ég að þú finndir engan þar sem er óánægður með þeirra kerfi.

"Andstæðingar þess hafa ekki getað mótmælt þeirri staðreynd með fullnægjandi rökum enda hafa engar heildstæðar raunhæfar tillögur um annað betra kerfi litið dagsins ljós."

Þetta er fullyrðing sem stenst ekki nokkra skoðun. Þingmenn Frjálslyndra lögðu árlega frá 2003 fram ítarleg gögn og tillögur sem byggja á dagakerfi þeirra Færeyinga. Það væri hægt að senda þér heila möppu af gögnum þar sem dagakerfið er útfært í hörgul.    

Atli Hermannsson., 17.2.2010 kl. 21:48

2 Smámynd: Atli Hermannsson.

Fyrirgefið villurnar; þá alveg sérstaklega ypsílonin í "auðlindinni" sem ég kann enga skýringu á. 

Atli Hermannsson., 17.2.2010 kl. 23:49

3 Smámynd: Atli Hermannsson.

Sæl Unnur. Mig langar að bæta við nokkrum vinklum sem mér finnst eigi að hafa mun meira vægi í allri umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið. Ef hér væri fiskstjórnunarkerfi sem tæki fyrst og fremst mið af líf-og vistfræðikerfinu í hafinu og lífsafkomu fólksins í landinu værum við ekki í dag að þvarga um jafn fáránlega hluti eins og fyrninguna.

Stutt samantekt og hagnýtar upplýsingar - fyrir Alþingismennsem telja kvótakerfið það besta í heimi.

Hvernig fara Færeyingar að?

Færeyska dagakerfi er frábrugðið okkar kerfi í því grundvallaratriðum að þeir stjórna sókn skipa á miðin. Því hafa færeyskir sjómenn hag af því að koma með allan þann fisk að landi sem í veiðarfærin kemur. Við notum hinsvegar aflamarkskerfi “kvótakerfi” og stjórnum því hvað má koma með að landi. Því kemur ekki allt í land sem í veiðarfærin kemur – heldur aðeins það sem “borgar sig” að koma með í land. Því eru okkar fiskiskip ekki bara tæki til veiða, heldur einnig “flokkunarvélar” sem hámarka verðmæti hvers þorskígildis sem í land kemur - áður en að landi er komið.

Útdeiling kvóta sem stjórntækis til að hámarka afrakstur á takmarkaðri auðlind er því fráleit aðferð, því “flokkunin” stjórnast einnig af hagsmunum fiskvinnslunnar – sem eru á sömu hendi. Og þar sem verðmætin í okkar aflamarkskerfi eru “ígildin”, er auðvelt að sjá hvar áherslurnar liggja – því kerfið hvetur til þess að velja aðeins þann fisk sem hentar vinnslunni og mörkuðunum - og henda hinu.

Þess vegna hlýtur það að teljast verulega vafasamt að Hafrannsókn skuli meta stofnstærðir og ráðleggja veiðiþol stofna, byggt á upplýsingum á flokkuðum fiski. Því magn og samsetning þess sem fleygt er ásamt “kvótasvindli” gerir veiðistuðulinn ómarktækan. því stofnstærðir eru ekki fundnar með raun-talningu eins og margir kunna að halda, heldur með umdeildu togararalli, ómarktækum veiðistuðli og ágiskuðum 18% náttúrulegum dánarstuðli - Því er kvótum útdeilt til eins árs fram í tímann, á grundvelli rangra upplýsinga úr fortíðinni.

Sóknarkerfi gefur mun betri mynd af stærð fiskstofna. Því auk þess að hámarka nýtingu alls þess sem í veiðarfærin kemur, þá koma stofnbreytingar strax fram sem stuðlar að markvissari og réttlátari ákvarðanatökum.

Færeyingar úthluta veiðidögum (dagakvóti) sem geta verið mismargir eftir útgerðarflokkum. En ýmsar undanþágur eru einnig að finna í lögunum. Til dæmis er stjórnvöldum heimilt að tvöfalda fjölda sóknardaga strandveiðiskipa, kjósi eigendur þeirra að veiða með handfærum.

Til viðbótar var lögsögunni skipt í innra og ytra sóknardagasvæði. Einn sóknardagur veitir rétt til að stunda veiðar í einn sólarhring á innra sóknardagasvæði. Hverjum sóknardegi á innra svæði má skipta fyrir þrjá sóknardaga á ytra svæði. Þannig er mönnum umbunað með aukadögum fyrir það að sækja lengra og dýpra frá ströndinni.

Þá eru ákveðin svæði friðuð varanlega fyrir ágangi. Frystitogarar eru bannaðir innan landhelginnar, þorskanet eru bönnuð og dragnætur einnig bannaðar. Þeir leggja mesta áherslu á vistvænar veiðar þar sem því verður við komið, með strandveiðiflota sem samanstendur af öflugum flota línuskipa og krókabátum.

Því er samsetning færeyska fiskiskipaflotans verulega frábrugðinn okkar flota. Þeir eru t.d. með um tvo öflug línuskip á móti hverjum togara. Því má segja að á tímum kröfunnar um “vistvænt og sjálfbært” hafi Færeyingar tvö vistvæn skip á móti einu óvistvænu. Hjá okkur er hlutfallið u.þ.b. eitt vistvænt á móti fjórum óvistvænum.

 Fátt er okkur mikilvægara eins og komið er fyrir þjóðinni en að leita allra leiða til að hámarka afrakstur auðlindarinnar. Því legg  ég til að úttekt yrði gerð á öllum tegundum veiðarfæra. Metin verði þau skamm- og langtímaumhverfisáhrif sem þau hafa á lífríkið og þeim gefið vægi í vísitölu eftir visthæfni. Þá væri metinn allur tilkostnaður og þjóðhagslegur ávinningur úr hverjum fiskstofni fyrir sig eftir tegund veiðarfæra eða “sóknarmunstri” sem notuð eru við veiðarnar.

Þá fengi t.d. eldsneytisnotkun vægi í “vísitölunni” sem stuðlaði gæti að minni innflutningi - sem er gjaldeyrissparandi. Því má geta þess að flokkur báta undir 10 tonn að stærð eyðir að jafnaði 0.15 lítra eldsneytis fyrir hvert kíló fisks sem þeir afla, línuskip 0.10 lítra, ísfisktogarar 0.43 lítra og frystiskip 0.75 lítra. Þegar skotið er á olíueyðslu skipa er einnig gott að styðjast við stuðulinn 165 grömm af olíu á hvert hestafl, pr. klukkustund. Þannig eyðir skip með 10 þúsund hestöfl u.þ.b. 1.600 lítrum á togtímann.

Þá gæti verið tekið tillit til þess að úr hverri milljón í aflaverðmæti á frystitogara er hásetahlutur um 10 þúsund krónur, en á bátaflotanum “eftir fjölda í áhöfn” á bilinu 20 - 120 þúsund. Það er því hreint ekki sama hvernig að veiðum úr takmarkaðri auðlind er staðið - og hvar tilkostnaðurinn lendir.

Þá yrði landgrunnið, kantarnir og úthafið kortlagt með tilliti til hrygning- og uppeldisstöðva, og hvar ástæða væri að vernda lífríkið fyrir áníðslu. Þannig er auðveldlega hægt að kortleggja veiðisvæði og finna þeim vægi í vísitölunni eftir mikilvægi. Þannig væri með skipulögðum hætti stuðlað að ábyrgri fiskveiðistjórn, þar sem allir útgerðarflokkar sætu við sama borð, þar sem raunveruleg hagkvæmni og hagræðing væri sett í öndvegi – en ekki forheimsk stærðardýrkun.

Að lokum. Því er stöðugt haldið að fólki að yfir 80% af aflaheimildunum hafi skipt um hendur og núverandi handhafar hafi “keypt” kvótann. Því verði að bæta þeim með einhverjum hætti skerðinguna ef t.d. fyrning kæmi til eins og stjórnarflokkarnir boða. Ég vil hins vegar benda á; að á löngu árabili eftir að framsalskerfið kom til sögunnar árið 1990, afskrifuðu allar stærstu útgerðirnar kvótakaupin hjá sér um 20% á ári - afskrifuðu á fimm árum. Þá lækkaði sú tala í 15% að mig minnir árið 1995. Þannig afskrifaði stórútgerðin öll kvótakaup til ársins 2003 og kom sér þannig hjá því að borga skatta. Eftir 2003 var skattareglunum breytt og ekki lengur hægt að draga kvótakaupin frá skatti. Því má með réttu segja að stórútgerðin hafi í raun aldrei greitt eina einustu krónu fyrir eitt einasta tonn sem LÍÚ þrástaglast á að hafa keypt dýrum dómum.

Gott í bili. Kv. Atli

Atli Hermannsson., 18.2.2010 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband