Gott að fá gesti, en það þarf að vera til eitthvað með kaffinu

Ég var málshefjandi í dag í þeim umræðum á Alþingi sem fram fóru í morgun um atvinnumál og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að við eigum fjölmörg tækifæri til að byggja upp sterkt og öflugt atvinnulíf. Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir atvinnuuppbyggingu á Íslandi en einmitt nú. Erlendir fjárfestar hafa vissulega sýnt mikinn áhuga á að koma að ýmsum verkefnum hér á landi sem flest öll tengjast orkufrekum iðnaði. Fjárfestar reka sig hins vegar á ýmsar hindranir í stjórnsýslunni. Brýnt er að taka á þessu sem fyrst til að liðka fyrir því að erlent fjármagn streymi til landsins.

Hindranirnar felast helst í því að óvissa ríkir um það hvernig skattumhverfið kemur til með að líta út hér á landi, einnig er umhverfismatsferli of langt og óljóst og tímafrestir varðandi matið ekki virtir af umhverfisráðuneytinu sem hefur valdið því að stór verkefni hafa runnið okkur úr greipum.

Stærsti óvissuþátturinn er þó sá að ekki er ljóst hvort einhver orka sé til staðar til að koma verkefnunum á koppinn. Virkjanaáform í neðri hluta Þjórsár eru í fresti vegna afskipta umhverfisráðherra af skipulagsmálum sveitarfélaga á svæðinu. Hugmyndum orkufyrirtækjanna um aðkomu krónubréfaeigenda að fjárfestingum s.s. vegna Búðarhálsvirkjunar fá ekki undirtektir eða svör í fjármálaráðuneytinu. Þá er með öllu óljóst hver stefna ríkisstjórnarinnar er í orkumálum.

Verkefnið okkar er að endurreisa efnahag landsins. Það gerum við með því að byggja upp í orkufrekum iðnaði, nýta auðlindir landsins og skapa eðlileg skilyrði fyrir atvinnulífið. Brýnt er að stjórnsýsla hins opinbera greiði fyrir uppbyggingu atvinnulífsins og ekki síst aðkomu erlendra fjárfesta hér á landi.


mbl.is Mikil traffík í iðnaðarráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Og svo er líka gott að hafa næga orku til að hita vatnið í kaffið!  Mér finnst að það þurfi að skoða möguleika á því að byggja litla virkjun á Torfajökulssvæðinu, stærsta jarðhitasvæðið landsins og líklega álitlegasta virkjunarkost okkar Rangæinga.  Auk tekna af orkusölu fengjum við með þessu vegi inn á svæðið og þar með opnast þarna möguleikar fyrir ferðaþjónustu jafnt sumar sem vegur.  Hugsanlega mætti með þessum jafnframt stýra umferð frá Landmannalaugum og öðrum viðkvæmari svæðum á Torfajökulssvæðinu.  Ég vil frekar sjá virkjanir inni á hálendinu en í byggð, en það er kannski mín sérviska.

Ómar Bjarki Smárason, 11.6.2009 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband