28.9.2009 | 23:00
mbl.is fyrstir með fréttirnar
Las á mbl.is að iðnaðarnefnd fundi á mánudag. Gat ekki lesið út úr fréttinni hvort fjallað yrði um ákvörðun ráðherrans varðandi álverið á Bakka. Hlakka til að fá fundarboðið.
Vill fund í iðnaðarnefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.9.2009 | 09:06
Að virkja náttúruöflin
Athyglivert að þeir hjá Mitsubishi séu komnir inn í það að skoða virkjun sjávarfallanna á Íslandi. Margir hafa skoðað þetta í gegnum tíðina en þessi aðferð við að beisla orku hefur þótt mjög dýr. Japanarnir vinir okkar hafa án efa bolmagn til að leggja verkefninu til fjármagn og þekkingu sem gæti haft verulega þýðingu á framþróun tækninnar á þessu sviði.
Við þurfum nú sem aldrei fyrr að hafa augun opin fyrir spennandi tækifærum sem þýða aukin atvinnutækifæri og sköpun gjaldeyristekna.
Japanar skoða sjávarfallavirkjun á Vestfjörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.9.2009 | 09:02
Er ég óvinur þjóðarinnar? (grein birt í Morgunblaði í dag)
Forseti bæjarstjórnar Árborgar, Jón Hjartarson, sem jafnframt er helsti leiðtogi Vinstri grænna á Suðurlandi, fer mikinn í grein sinni hér í Morgunblaðinu á sunnudag. Með tilvitnun í sjálft Nóbelsskáldið segir hann þjóðina bera ábyrgð á eigin óförum þar sem hún hafi sjálfviljug valið að fela Sjálfstæðisflokknum að vera leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum um áratuga skeið. Með því hafi þjóðin sáð í akur óvinar síns. Kveðjurnar úr Árborg eru ansi kaldar til þjóðarinnar, kjósenda Sjálfstæðisflokksins og okkar sem störfum fyrir hann.
Það er rétt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá stofnun hans árið 1929 verið kjölfesta í íslenskum stjórnmálum. Kjósendur hafa fylkt sér um stefnu flokksins, stefnu sem felur í sér þann einfalda boðskap að einstaklingurinn njóti þess frelsis að hann geti með framtaki sínu skapað sér sín eigin tækifæri. Stefnu þar sem lagt er upp með að stétt vinni með stétt að því að efla samfélagið, því þannig skapist sterk heild sem allir njóti góðs af. Stefnu sem efast um að ríkisvaldið sé best til þess fallið að leysa öll verkefni og vandamál, en er jafnframt umburðarlynd gagnvart mismunandi lífsháttum. Þessi gildi hafa ávallt átt ríkan hljómgrunn hjá íslensku þjóðinni og hefur flokkurinn notið fylgis úr öllum stéttum samfélagsins. Nokkrir tugir þúsunda íslendinga eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn og vinna af heilindum innan hans að því sameiginlega markmiði okkar allra að skapa bætt samfélag og aukin lífsgæði til handa landsmönnum öllum. Allan þennan stóra hóp fólks kýs forseti bæjarstjórnar í Árborgar að kalla óvin íslensku þjóðarinnar.
Gífuryrði af þessu tagi eru vart svaraverð og bera þess helst merki að viðkomandi sé ósáttur yfir því að hans eigin flokkur kemur ekki nógu vel út úr skoðanakönnunum. Á þeirri staðreynd er sú einfalda skýring að VG nær ekki að fylgja stefnu flokksins í viðamiklum málum, þrátt fyrir að sitja í ríkisstjórn. Því taka kjósendur eftir.
Í dag ríkir lítið traust til íslenskra stjórnmálamanna. Við sem störfum í stjórnmálum verðum að leggja okkar af mörkum til þess að bæta úr því. Traustið verður ekki endurbyggt af auglýsingastofum í Reykjavík eða nýjum slagorðum. Það verður að endurvinna með nýjum aðferðum, gagnsægi, ábyrgð og röggsemi að leiðarljósi.
Það gerum við ekki með hrakyrðum og niðurlægjandi athugasemdum um kjósendur og ákvarðanir þeirra í kjörklefanum. Ég hvet því Jón til að taka sér tak, horfa fram á við og leggja fram einhverjar lausnir á þeim gríðarstóru verkefnum sem framundan eru í íslensku samfélagi. Af nógu er að taka. Eitt er víst að við náum ekki árangri ef stjórnmálamenn hífa sig ekki upp úr skotgröfunum. Við þurfum að bera virðingu hvert fyrir annars skoðunum. Það er trú mín að allir sem starfa í stjórnmálum gera það til að bæta íslenskt samfélag, hvort sem þeir starfa í VG eða Sjálfstæðisflokknum.
Íslendingar geta hins vegar, hér eftir sem hingað til, treyst því að hin gömlu góðu gildi sjálfstæðisstefnunnar eru í fullu gildi og gleymast ekki hvort sem flokkurinn er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við sem störfum í forystusveit Sjálfstæðisflokksins munum leggja okkar lóð á vogaskálarnar til þess að endurvinna það traust sem hefur glatast og byggja upp íslenskt samfélag.
22.9.2009 | 10:28
Olíubændur í íslenskum sveitum?
Þessi grein birtist í Mogganum í dag. Myndirnar eru teknar af Ólafi Eggertssyni bónda á Þorvaldseyri af nepjuakrinum þar á bæ.
Í þeirri efnahagslægð sem Íslendingar glíma við er eðlilegt að við skoðum hvaða möguleika við höfum til að skapa fleiri störf, auka gjaldeyristekjur og leita lausna sem leiða til minni innflutnings aðfanga. Ein stærsta auðlind okkar felst í hinu mikla, góða landi sem hægt er að nýta til ræktunar. Á því sviði liggja mikil tækifæri og þar tel ég að við eigum að sækja fram.
Stöðug framþróun
Íslenskur landbúnaður hefur verið í stöðugri framþróun frá því land byggðist. Sérstaða Íslands hefur markast af því hversu norðarlega það liggur og af þeirri staðreynd að landið er eyja. Ræktunarmöguleikar nýrra tegunda eru oft dregnir í efa vegna legu landsins en dæmin sanna að ýmislegt er hægt ef vilji, elja og útsjónarsemi eru fyrir hendi. Á síðustu áratugum hefur nýsköpun í ræktun nytjaplantna í íslenskum landbúnaði aðallega falist í þeirri byltingu sem orðið hefur í kornrækt hér á landi. Á skömmum tíma hefur náðst undraverður árangur og miklar framfarir orðið á því sviði. Íslenskt bygg og hveiti til manneldis eru afurðir sem neytendur njóta í síauknum mæli. En þar er ekki öll sagan sögð, því einnig er hægt að vinna olíu úr íslenskum landbúnaðarafurðum, bæði eldsneyti og olíu til matargerðar og framsýnir sunnlenskir bændur hafa tekið þessum möguleika fagnandi. Hér á landi hefur Siglingastofnun undanfarið ár staðið fyrir tilraunaræktun á repju og nepju en í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að stofnunin leggi sig eftir rannsóknum er varða umhverfisvæna orkugjafa.
Repja og nepja eru harðgerðar jurtir sem ræktaðar eru víðast hvar á norðlægum slóðum svo sem í Kanada og í Skandinavíu. Úr fræjunum er pressuð olía sem eins og áður sagði má nota hvort heldur sem er sem eldsneyti eða til matargerðar. Einn hektari gefur um 1.200 lítra af bíódísilolíu sem nota má beint á óbreyttar dísilvélar skipa og bíla, um tvö tonn af fóðurmjöli sem er próteinríkt dýrafóður fyrir nautgripi, svín, sauðfé eða til fiskeldis ásamt þremur tonnum af hálmi, 120 kg af glyseróli og 100 g af metanóli sem nota má til framleiðslu á bíódísil eða beint á bensínvélar skipa. Andvirði fóðurmjölsins eins og sér stendur því sem næst undir kostnaðinum við að rækta einn hektara af repju. Í haust var uppskera repju og nepju af tveimur hekturum lands á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum 5,8 tonn af fræi. Sú staðreynd að uppskeran hér er sambærileg við uppskeru í Norður-Evrópu hvað magn varðar vekur athygli þar sem íslensk sumur eru bæði skemmri og kaldari en í Evrópu. Nú hefur verið sáð í 25 hektara lands sem munu gefa uppskeru haustið 2010. Rannsókn Siglingastofnunar beinist sérstaklega að því hvort þessar tegundir vaxi yfirleitt á Íslandi og hvort birtan hérlendis, sem ríkir nánast allan sólarhringinn sumarlangt, geti komið í staðinn fyrir lengri og heitari sumur í Skandinavíu og Norður-Evrópu.
og umhverfisvæn framleiðsla
Ræktunin er umhverfisvæn á ýmsan máta, til dæmis dregur einn hektari af repju í sig sex tonn af koldíoxíði meðan á ræktun stendur. Repjuolían sem síðar er brennd skilar til baka í andrúmsloftið þremur tonnum af koldíoxíði og er útkoman því tvöföld kolefnisbinding. Það er mikilvægt að við sjáum tækifærin í kringum okkur og því spennandi að sjá hvert þetta verkefni leiðir okkur. Mín von er sú að heiðgulir repju og nepjuakrar verði innan skamms algeng sjón í íslenskum sveitum þar sem bændur sjái þar möguleika á að auka tekjur sínar, nýta betur land sem ekki er í notkun, íslenska þjóðarbúinu og umhverfinu til heilla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2009 | 12:52
Hitnar undir valdhöfum í verkalýðshreyfingunni?
Það er eðlilegt að launafólk sé gagnrýnið á störf þeirra sem fara með stjórnartaumana í verkalýðshreyfingunni. Stjórnendur lífeyrissjóðanna hafa mikil völd í sínum höndum enda er íslenska lífeyrissjóðakerfið mjög sterkt þrátt fyrir að umtalsverðir fjármunir hafi tapast þar í hruninu. Breytingar á kerfinu eiga ekki endilega mjög upp á pallborðið hjá þeim sem þar stjórna samanber viðbrögðin við hugmynd okkar sjálfsstæðismanna frá því í sumar um breytingar á skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna.
Launafólk taki yfir sjóðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.9.2009 | 12:09
Spennandi verkefni
Í heimsókn minni í Siglingastofnun um daginn átti ég þess kost að kíkja aðeins á þetta líkan sem var þá í smíðum. Verkefnið er spennandi og verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig tilraunirnar koma út. Ef af framkvæmdum verður opnast ný tækifæri til eflingar atvinnulífsins í Eyjum og á Suðurlandi.
Landeyjahöfnina sá ég einmitt fyrst í líkansformi í opnu húsi hjá Siglingastofnun þar sem hægt var að fylgjast með "Herjólfi" sigla inn í höfnina sem nú er að taka á sig mynd. Nú er aðeins tæpt ár þar til Landeyjahöfnin verður tekin í notkun en við það verður gerbylting á samgöngumálum Eyjamanna. Tilkoma hafnarinnar felur í sér mikla vaxtarmöguleika fyrir Suðurland allt sem og Eyjar, sérstaklega hvað varðar ferðaþjónustu en ekki síður skapast tækifæri til spennandi samstarfs milli lands og eyja. Nú ríður á að heimamenn leggi höfuðið í bleyti og grípi þau tækifæri sem í þessum stórbættu samgöngum felast.
Mikil samskipti hafa í gegnum aldirnar verið milli Rangæinga og Eyjamanna enda ekki nema nokkrir áratugir frá því sjósókn lagðist af frá Landeyjasandi. Járngerður amma mín sem bjó undir Eyjafjöllum tók sér t.d. far úr Landeyjasandi væntanlega með bændasonum á leið á vertíð yfir til Eyja til að vinna við hjúkrun. Spurning hvort nafna hennar muni gera það sama innan nokkurra ára? Möguleikinn verður a.m.k. til staðar.
Það verður gott fyrir báða aðila að efla tengslin enn og aftur. Rík saga um góð samskipti milli lands og Eyja er traustur grunnur að nýjum spennandi tímum.
Kanna nýja stórskipahöfn í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2009 | 15:04
Ekki boðleg lausn
Enn og aftur erum við minnt á mikilvægi þess að eiga greiðar og góðar samgöngleiðir með þeim vanda sem nú er komin upp varðandi notkun Breiðafjarðarferjunnar á sjóleiðinni til Eyja. Öll byggðarlög sama hvar á landinu þau eru eiga tilveru sína, samkeppnishæfni og vaxtarmöguleika undir þeim samgönguleiðum sem færar eru . Eyjamenn, ólíkt flestum öðrum landsmönnum, eru einfaldlega minntir hressilega á þessa staðreynd reglulega. Tel að allir landsmenn skilji sjónarmið Eyjamanna og komi til með að þjappa sér að baki því að klára framkvæmdir og útfærslu á framtíðar ferjumálum á sjóeiðinni til Vestmannaeyja gegnum hina nýju Landeyjahöfn.
Markmiðið hlýtur að vera að tryggja að tilvik sem þessi komi ekki upp. Er ekki einfaldlega niðurstaðan að sú ákvörðun að nota Baldur í afleysingasiglingar milli lands og Eyja var röng?
Vestmannaeyjar án sjósamgangna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.9.2009 | 07:43
Tillaga var lögð fram um málið á sumarþingi
Þann 19. júní sl. lagði ég ásamt Tryggva Þór Herbertssyni fram á Alþingi, tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að hvetja til fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi.
Aldrei í sögu lýðveldisins hefur verið meiri þörf fyrir atvinnuuppbyggingu og gjaldeyrisskapandi iðnað en einmitt nú. Erlendir fjárfestar hafa sýnt mikinn áhuga á því að koma að ýmsum verkefnum hér á landi sem tengjast flest orkufrekum iðnaði en hann myndar eins og kunnugt er fjölda beinna og afleiddra starfa, m.a. hjá tækni- og þekkingarfyrirtækjum og einyrkjum. Erlendir fjárfestar reka sig hins vegar á ýmsa tálma í íslenskri stjórnsýslu sem hindra það að verkefnin komist af hugmyndastigi á framkvæmdastig. Þannig er ekki til rammalöggjöf um erlendar fjárfestingar, orkuafhending er óviss og mat á umhverfisáhrifum er tafsamt ferli og oft og tíðum tilviljanakennt. Brýnt er að taka á þessu sem fyrst til að liðka fyrir því að erlent fjármagn streymi til landsins til að byggja upp atvinnulífið til framtíðar og skapa þjóðinni auknar gjaldeyristekjur. Hlutverk stjórnvalda er að skapa þá umgjörð sem þarf til að hvetja erlenda fjárfesta til atvinnusköpunar en ekki að setja upp óþarfa hindranir sem letja erlenda fjárfestingu. Stjórnsýslan má ekki þvælast fyrir þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífsins það seinkar endurreisninni.
Í þinsályktunartillögunni var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að beita sér fyrir aðgerðum til að auðvelda fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi með því að setja sérstaka rammalöggjöf þar um, gera áætlun um orkuafhendingu til a.m.k. 5 ára, til að endurskoða lagaákvæði um mat á umhverfisáhrifum og skildi þessar aðgerðir komnar til framkvæmda fyrir 1. ágúst sl.
Þingsályktunartillagan fékkst ekki rædd á sumarþingi.
ESB og Icesave áttu sviðið.
Erlend fjárfesting mikilvæg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.9.2009 | 14:35
Hárrétt hjá Hannesi
Íslenska þjóðin er rík þar sem landið okkar er auðugt af orku. Mikilvægt er hér eftir sem hingað til að við nýtum okkur þá möguleika sem náttúran býður upp á til að efla búsetu og lífsgæði landsmönnum öllum til heilla. Tækifærin eru til staðar, stjórnmálamenn verða að hafa kjark til að grípa þau. Ráðamenn verða að hafa framtíðarsýn varðandi uppbyggingu atvinnutækifæra. Við leysum ekki vandamál skuldsettra heimila, sköpum ekki fleiri störf né byggjum upp öflugt efnahagslíf að nýju með því einu að hækka skatta.
Við skulum lifa af því sem landið gefur og grípa tækifærin.
Hefja á sókn í orkumálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.9.2009 | 16:31
Efnilegur leiðtogi hér á ferð
Ég vil óska Fanney Birnu til hamingju með þá ákvörðun að gefa kost á sér til formennsku í SUS. Fanney Birna er skelegg og skynsöm stúlka sem hefur alla burði til að ná góðum árangri í því að vinna stefnu Sjálfstæðisflokksins fylgi. Gangi henni sem allra best í framtíðinni.
Býður sig fram til formanns SUS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |