4 fyrirspurnir lagðar fram í dag

Í fyrsta lagi beini ég fyrirspurn til samgönguráðherra um hvort unnið sé að því að Hornafjarðarflugvöllur fái aftur löggildingu sem millilandaflugvöllur með áherslu á ferjuflug og einkaflug og ef svo er, hver staða þeirrar vinnu er?

Í öðru lagi beini ég þeirri fyrirspurn til samgönguráðherra hvort fyrirhugaðar séu breytingar á aðkomu ríkisins að flugsamgöngum til Vestmannaeyja vegna tilkomu Landeyjahafnar. Ljóst er að svar við þessari spurningu varðar Eyjamenn og gesti þeirra miklu og þarf að fara að komast á hreint hvernig málum verður háttað.

Í þriðja lagi beini ég tveim fyrirspurnum til menntamálaráðherra um hver sé staða undirbúningsvinnu að stofnun tveggja framhaldsskóla, annars vegar í Rangárþingi og hins vegar  í Grindavík.

Fróðlegt verður að fá svör við þessum fyrirspurnum en um þessi mál og fleiri var fjallað á ársþingi Sambands sunnlenskra sveitarfélaga á Hornafirði um miðjan síðasta mánuð og um framhaldsskólann í Grindavík á fundi SSS, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum þann 17. október sl.

 


Svör fengin við þrem skriflegum fyrirspurnum

Nú fer að síga á seinni hluta annasamrar viku í þinginu. Í vikunni hef ég fengið skriflegt svar við Tveim fyrirspurnum sem ég hef lagt fram.

Í fyrsta lagi beindi ég fyrirspurntil dómsmálaráðherra um hversu mörgum nauðungarsölum fasteigna var til 1. nóvember sl.  samkvæmt sérstakri lagaheimild. Í ljós kom að sölu 1056 fasteigna var frestað á landinu öllu. Á morgun fer fram önnur umræða um frumvarp dóms- og mannréttindaráðherra um frekari frestheimildir, nú til 31. janúar n.k. Frekari frestun er eflaust það eina sem hægt er að gera eins og staðan er í dag en hins vegar verður að gagnrýna það að ekki skuli frekar tekin ákvörðun um hvernig þessum málum skuli vinda fram. Óvissunni er enn fram haldið og fær að fylgja a.m.k. 1056 fasteignaeigendum inn í nýárið. 

Í öðru lagi beindi ég þeirri fyrirspurn til dóms- og mannréttindaráðherra hversu margar beiðnir um heimild til  greiðsluaðlögunar hafi verið teknar fyrir hjá dómstólum landsins. Í svari ráðherrans kemur fram að 318 beiðnir um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar hafi borist héraðsdómstólunum, þar af eru 77 óafgreiddar. Samþykktar beiðnir eru 215 en 14 var hafnað. Þá hafa 5 beiðnir verið afturkallaðar.

Í þriðja lagi beindi ég fyrirspurn til fjármálaráðherra varðandi fjölda opinberra starfa hjá ríkinu 2005-2009.  Í svarinu kom fram athygliverðar upplýsingar varðandi þróun fjölda opinberra starfa sem ég mun fjalla nánar um hér síðar.


Alger uppgjöf af hálfu ríkisstjórnarinnar

Ég heyrði í fréttum áðan þá túlkun að sigur fælist í því að fallist væri á að vafi leiki á um kröfur Breta og Hollendinga vegna Icesave. Engu að síður fellst ríkisstjórnin á að greiða kröfuna að fullu. Ég heyrði líka fréttaflutning af því að Bretar og Hollendingar hafi fallist á alla fyrirvara er varða sjálfstæði Íslands. Þurfti að spyrja sérstaklega að því?  

Ég tel varla hægt að niðurlægja eina þjóð meira en ríkisstjórnin hefur gert með þessu nýja samkomulagi?

Efnahagslegu fyrirvararnir eru bitlausir þar sem ríkisábyrgðin er tímalaus og vextir skulu alltaf greiðast að fullu óháð hagvexti. Lagalegu fyrirvararnir hafa litla sem enga þýðingu því hvað stoðar að mega leita réttar síns ef niðurstaðan á ekki að hafa neitt gildi?

Fyrirvararnir sem Alþingi setti í sumar í íslensk lög hafa með þessari aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið algerlega útvatnaðir og Bretum og Hollendingum í raun gefið lagasetningarvald á Íslandi.

Ég spyr er það í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að ríkisstjórnin semji á þennan hátt þvert á gildandi lög frá Alþingi Íslendinga?

 


mbl.is Lengra varð ekki komist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótshlíðingurinn Nína

Nína Sæmundsson var fædd í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð og er einn þekktasti listamaður Rangárþings. Nína var fyrst íslenskra kvenna til að leggja fyrir sig höggmyndanám.  Eftir nám bjó hún ein 30 ár í Bandaríkjunum og varð þar ein af okkar frægustu myndhöggvurum, en eftir hana eru verk víða um heim.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur á yfirstandandi kjörtímabili lagt mikið upp úr því að kynna menningararf svæðisins fyrir gestum og íbúum sveitarfélagsins. Menningarnefnd Rangárþings eystra hefur af því tilefni staðið fyrir mörgum merkilegum listviðburðum í Sögusetrinu á Hvolsvelli.

Sýning á höggmyndum  Nínu í águst 2007 var einn af hápunktum þess starfs en verkin voru fengin að láni hjá Listasafni Reykjavíkur.

Áhugasamir eru hvattir til að koma við í Nínulundi við Hlíðarenda í Fljótshlíð en hægt er að ganga frá kirkjunni á Hlíðarenda yfir í lundinn. Þar hefur verið komið fyrir styttunni Móðurást en það verk fékk á sínum tíma fyrstu verðlaun í samkeppni í Los Angeles sem yfir þúsund listamenn tóku þátt í.

Nína er sannarlega í hópi athygliverðustu kvenna Íslandssögunnar en alkunna er að margir kvennskörungar hafa búið í Fljótshlíðinni í gegnum tíðina.


mbl.is „Alltaf verið dálítið vanmetin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar komin í leitirnar

(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag)

Á sumarþingi hef ég ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum reynt að fá fram hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur í orku- og atvinnumálum. Umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra hafa þar talað í kross. Þó hefur komið fram að mikilvægt sé að fjölga störfum í landinu.

Grímunni kastað

Grímunni er loks kastað með ákvörðun iðnaðarráðherra um að framlengja ekki viljayfirlýsingu um álver á Bakka sem og úrskurði umhverfisráðherra að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum. Allt er gert til að stöðva það að fleiri álver verði að veruleika hér á landi. Það er stefna ríkisstjórnarinnar.

 Óvissan enn aukin

Það ætti ekki að þurfa að taka það fram, hversu brýn þörf er á atvinnuuppbyggingu á Íslandi einmitt nú. Erlendir fjárfestar hafa sýnt mikinn áhuga á því að koma að ýmsum verkefnum hér á landi sem tengjast flest orkufrekum iðnaði. Ákvarðanir ráðherranna tveggja þýða að langþráðum atvinnutækifærum er í besta falli frestað en í versta falli kastað á glæ. Enn er aukið á óvissuna varðandi atvinnutækifæri til framtíðar.

Að byggja upp

Verkefnið sem liggur fyrir er að endurreisa íslenskan efnahag. Atvinnulífið byggjum við upp með því að treysta grunnstoðirnar, byggja upp í orkufrekum iðnaði, nýta auðlindir landsins og skapa eðlileg skilyrði fyrir rekstur og atvinnulíf. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa þau skilyrði að atvinnulífið geti blómstrað en ekki að bregða fæti fyrir þau tækifæri sem í augsýn eru.

Í hnotskurn

Í orði skal fjölga störfum, á borði er tækifærum kastað á glæ. Það er atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.   


Að skilja samhengi hlutanna

Umhverfisráðherra ritar pistil á heimasíðu sína á Pressunni í dag þar sem hún ber af sér þær sakir sem á hana eru bornar um að tefja fyrir uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum vegna úrskurðar um Suðvesturlínu fyrr í vikunni.  Óvissuþættir varðandi álver í Helguvík séu svo margir að málið sé hvort sem er í uppnámi. Að lokum biður ráðherrann um að menn tali um umhverfismál „eins og fullorðið fólk“.

  • Ráðherrann þarf að skilja að úrskurðurinn sendir þau skilaboð til erlendra fjárfesta að íslenskum stjórnvöldum sé ekki treystandi til að standa við fyrri ákvarðanir sínar.
  • Ráðherrann þarf að skilja að slíkt hefur veruleg áhrif á möguleika okkar til framtíðar til að laða erlenda fjárfesta til landsins.
  • Ráðherrann þarf að átta sig á því að úrskurðurinn sendir þau skilaboð að ríkisstjórnin ætli ekki að standa við stöðugleikasáttmálann.
  •   Ráðherrann þarf að skilja að það er holur hljómur í hennar málflutningi um að hún viðhafi með úrskurði sínum góða stjórnsýsluhætti þegar hún brýtur við málsmeðferðina þá tímafresti sem lög gera ráð fyrir.
  • Ráðherrann þarf að skilja að lesa má út úr grein hennar á Pressunni að önnur sjónarmið en fagleg hafi ráðið niðurstöðu hennar í málinu.
  • Ráðherrann þarf að skilja að úrskurðurinn veldur enn meiri óvissu í íslensku atvinnulífi en fyrir var og var óvissan þó næg fyrir.

  • Ráðherrann þarf að skilja samhengi hlutanna. Það gerir fullorðið fólk.

Óvissa, óvissa og óvissa

Það er mér lífsins ómögulegt að skilja hvert ríkisstjórnarflokkarnir eru að fara í orku- og atvinnumálum landsmanna. Ráðherrar Samfylkingar tala fjálglega um að brýnt sé að grípa tækifærin, telja hlutina alveg vera að smella varðandi atvinnuuppbyggingu tengdum orkufrekum iðnaði á Suðurnesjum, tala einn daginn um að álver á Bakka sé málið en neita svo að framlengja viljayfirlýsingu um málið.

 VG horfir á Stöðugleikasáttmálann, ummæli Samfylkingarmanna og reynir að finna leið til að hindra að hlutirnir geti orðið að veruleika. Án þess þó að segja það hreint út. Vísa í góða stjórnsýsluhætti!

Ég spyr: Hvers vegna þorir VG ekki einfaldlega að tala hreint út og segja að þau ætli með öllum tiltækum ráðum að stöðva allar frekari uppbyggingu álver á Íslandi? Alla uppbyggingu í orkufrekum iðnaði? Þingmenn VG þorðu að tala meðan að þau voru í stjórnarandstöðu. Hvers vegna ekki nú?

 Vísa að öðru leyti í færslu mína hér síðan í gærkvöldi.


mbl.is Úrskurður umhverfisráðherra veldur mikilli óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þennan asa?

Sveitarstjórnarkosningar eru í lok maí á næsta ári og óhætt er að fullyrða að undirbúningur að framboðum víða um landið er löngu hafinn. Kosningalöggjöfin er ekki fullkomin og gott mál að fara yfir hlutina. En það er vægast sagt óþægilegt að kjósendur viti ekki eftir hvaða fyrirkomulagi komandi kosningar fari fram. Nú kemur fram hjá forsætisráðherranum að málið verði í sérstökum forgangi hjá ríkisstjórninni á komandi þingi. Ég myndi frekar nota áhrif mín væri ég forsætisráðherra til að koma böndum á ríkisfjármálin, koma með lausnir fyrir skuldsett heimili, koma fram með skýra stefnu í orku- og atvinnumálum sem kæmi strax til framkvæmda auk þess að vinna að því myrkrana á milli að vekja von um betri tíð með verkum mínum. Hvers vegna ekki að gefa málinu meiri tíma? Sveitarstjórnarmenn hafa það á tilfinningunni að nota eigi sveitarstjórnarkosningarnar til tilraunastarfsemi á vegum VG og Samfylkingar. Af hverju ekki hugsa þetta aðeins betur og taka tilraunina, ef af verður, á þingmannskandídata frekar en sveitarstjórnarmenn?


mbl.is Persónukjör forgangsmál á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að drepa niður tækifærin

Ákvörðun umhverfisráðherra frá því í dag um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum hefur því miður áhrif á þetta góða mál. Gagnaver Verne Global á gamla varnarliðssvæðinu er gríðarlega mikilvæg skref til þess að skapa fleiri störf og að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Hvort tveggja er grundvallaratriði til þess að við náum okkur sem fyrst upp úr efnahagslægðinni. EN gagnaverið þarfnast orku, orkuna þarf að flytja og það gerist ekki ef engin flutningsmannvirki eru til staðar.

Við þurfum sárlega á því að halda að sjá tækifærin sem blasa við komast í framkvæmd. Við þurfum að veita fólki von.  Umhverfisráðherra er ekki að vinna að því markmiði - þvert á móti. Þeir fjárfestar sem taka þátt í þessu verkefni sem og öðrum sem eru í undirbúningi hafa ekki endalausa þolinmæði gagnvart hringlandahætti ráðherra ríkisstjórnarinnar.  

Ákvörðun umhverfisráðherrans hefur afar víðtæk áhrif. Áhrif á traust erlendra fjárfesta á stjórnvöldum, áhrif á trú landsmanna á að atvinnutækifærin sem eru nú þegar pípunum skili sér og áhrif í þá átt að auka óvissuna sem ríkir hér á landi enn frekar.  

Ég hef frá því ég settist á þing leitað eftir svörum við því hver er stefna ríkisstjórnarinnar í orku- og atvinnumálum. Þar hafa iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra talað í kross. Ég óttast að loks sé stefnan komin fram, hér í þessu máli. 

Það getur ekki verið stefna ríkisstjórnar Íslands að drepa niður tækifærin í atvinnumálum og til öflunar gjaldeyristekna. Það er krafa mín að málið verði tekið upp í ríkisstjórn. 


mbl.is Beðið eftir fjárfestingarsamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvænt niðurstaða?

Satt að segja er þessi niðurstaða ekki óvænt. Ráðherrann í umhverfisráðuneytinu er á blússandi siglingu við að setja öll áform um hverskonar nýtingu orkuauðlindanna okkar og tengd verkefni á ís. Það er sama hvar er borið niður. Aðalskipulag sveitarfélaganna við Þjórsá er af sömu ástæðu geymt á ís í ráðuneytinu þar sem ráðherrann er ekki sáttur við að virkjað verði í Þjórsá. Hvers vegna er það þá ekki einfaldlega sagt hreint út? Gæti það verið af þeirri ástæðu að ríkisstjórnarflokkarnir VG og Samfylking eru einfaldlega algerlega ósammála um það hvaða stefnu á að taka í málinu? Af málflutningi umhverfisráðherrans annars vegar og iðnaðarráðherra hins vegar bæði á sumarþinginu og í fjölmiðlum verður ekki dregin önnur ályktun.
mbl.is Ákvörðun Skipulagsstofnunar felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband