Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
18.10.2010 | 13:03
Hvað hefur Alþingi gert varðandi skuldavanda heimilanna?
Undanfarna mánuði hefur því ítrekað verið haldið fram að stjórnmálamenn geti ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Ég leyfi mér að vera ósammála því enda er það mín reynsla af þingstörfunum að vel sé hægt að vinna að stórum verkefnum á þverpólitískum grundvelli. Við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á að flokkunum beri að vinna saman að því að finna lausnir á skuldavanda heimilanna og höfum stutt þær lagabreytingar sem hafa snúið að þeim málum. Þær hafa hins vegar flestar snúið að úrræðum til handa þeim sem komnir eru í verulegan greiðsluvanda en enn skortir á aðgerðir sem miða að því að fækka þeim sem þurfa á slíkum úrræðum að halda. Það ætti að vera meginmarkmið stjórnvalda.
Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu þess efnis í síðustu alþingiskosningum að lækka greiðslubyrði af húsnæðislánum um 50% í 3 ár en lengja lánin sem því nemur. Tillögunni var ætlað að skapa meira svigrúm fyrir lántakendur til að standa við aðrar skuldbindingar og að stjórnvöld nýttu tímann til að vinna að uppbyggingu efnahagslífsins, auka hagvöxt, skapa aðstæður fyrir aukin atvinnutækifæri og gera með því hverjum einstaklingi kleift að auka ráðstöfunartekjur sínar.
Síðastliðið haust samþykkti Alþingi lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins þar sem lögfest voru ákvæði um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Við sjálfstæðismenn studdum lagabreytinguna enda var þar byggt á þeirri hugmynd sem við kynntum í kosningabaráttunni þó að útfærslan væri á annan veg en við hefðum farið fram með.
Við afgreiðslu þess lagafrumvarps lögðum við sjálfstæðismenn mikla áherslu á mikilvægi þess að fulltrúar allra flokka ynnu saman að útfærslu frekari úrræða vegna skuldavanda heimilanna. Félagsmálaráðherra skipaði í kjölfarið starfshóp þingmanna allra flokka sem starfaði allan sl. vetur með það að markmiði að kortleggja ágalla þeirra úrræða sem til staðar eru en jafnframt ræddi hópurinn frekari úrræði almenns eðlis og átti ég sæti í þeim hópi f.h. þingflokksins.
Í mars kynnti ríkisstjórnin síðan á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu aðgerðapakka sem svaraði að mati ríkisstjórnarinnar öllum spurningum varðandi skuldavanda heimilanna. Jafnframt var tilkynnt að um frekari aðgerðir til handa heimilunum yrði ekki að ræða. Félagsmálaráðherra lagði í kjölfarið fram nokkur lagafrumvörp sem félagsmálanefnd Alþingis fékk til umfjöllunar en ég sit í þeirri nefnd ásamt Pétri H. Blöndal. Í stuttu máli sagt tók nefndin þessi frumvörp og skrifaði upp á nýtt. Í nefndinni fór fram gríðarlega umfangsmikil vinna, þvert á flokka með það að markmiði að bæta greiðsluvandaúrræði til handa þeim sem eru komnir í mikinn vanda og afraksturinn var lög um greiðsluaðlögun, lög um tvær fasteignir og umboðsmann skuldara. Ein veigamesta breytingin fellst í því að úrvinnsla mála er nú hjá umboðsmanni skuldara í stað þess að umsóknir fari allar í gegnum dómstólana, en sú leið var mjög tímafrek og óskilvirk. Sjálfstæðismenn tóku virkan þátt í vinnu nefndarinnar og studdu framgang mála en við tókum fram að enn skorti á aðgerðir sem hefðu það markmið að fækka þeim einstaklingum sem þurfa að leita inn í þessi úrræði.
Í félags- og tryggingamálanefnd er nú unnið að smíði frumvarps sem er ætlað að laga enn frekar þau úrræði sem þegar hafa verið lögfest enda voru málin unnin í miklum flýti í sumar og við mjög sérstakar aðstæður. Ég hef fulla trú á því að nefndinni auðnist í sameiningu að bæta löggjöfina enn frekar. Tryggja þarf að úrvinnsla mála gangi hratt og vel fyrir sig hjá umboðsmanni skuldara en reynsla hefur ekki enn komið á það hvort svo sé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2010 | 11:47
Ekkert að frétta
Það er ekki einfalt mál að finna lausn á skuldavanda heimilanna enda vandinn margþættur. Hins vegar eru allir flokkar nú sammála um það að leita þurfi frekari lausna en lagðar hafa verið fram. Við sjálfstæðismenn höfum lagt þeim lagabreytingum er varða skuldavanda heimilanna lið hingað til en höfum jafnframt tekið fram að enn skorti aðgerðir til að forða því að fleiri einstaklingar lendi í verulegum greiðsluerfiðleikum. Okkar nálgun hefur verið sú að flokkarnir eigi að setjast saman að því verkefni að vinna að lausnum og horfa á vandann í heild. Fram hafa komið margar áhugaverðar tillögur til að takast á við vandann, það er stjórnmálamanna að finna út hver þeirra sé best til þess fallin að koma okkur áfram og upp úr lægðinni. Sú leið sem endanlega verður fyrir valinu verður alltaf umdeild, kostnaðarsöm fyrir einhverja aðila og ljóst að ekki munu allir fá allt sem þeir vilja.
Ríkisstjórnin hefur því miður ekki nýtt tímann vel. Enn í dag eru menn að deila um hvert umfang vandans er þar sem stjórnvöld hafa ekki sinnt því að kortleggja hann sem skildi. Það gefur auga leið að erfitt er að ná samstöðu um lausn á vanda þegar menn eru ekki sammála um hver vandinn er. Boð ríkisstjórnarinnar um þverpólitískt samstarf kemur seint og virðist ekki sprottið fram af löngun til að leysa vandann heldur fremur vegna hræðslu við mótmæli á Austurvelli. Ráðherrar tala nú í ólíkar áttir í fjölmiðlum, væntingar um að stóra lausnin sé nú í spilunum hafa enn og aftur verið skapaðar og erfitt verður fyrir alla aðila að horfast framan í þann blákalda raunveruleika að ríkisstjórninni hefur mistekist að ná utan um verkefnið.
Það er engin skyndilausn til á skuldavanda heimilanna.
Engar ákvarðanir enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.9.2010 | 12:16
Eftirlitsnefnd á rangri braut
Sveitarfélögin í landinu hafa ekki farið varhluta af þeim efnahagsþrengingum sem nú ríkja. Mörg þeirra hafa náð að grípa til aðgerða til að bregðast við stöðunni og liðug stjórnsýsla þeirra hefur gert það að verkum að þær aðgerðir hafa gefist vel. Að mínu mati mætti ríkið læra mjög margt af því hvernig sveitarfélögin hafa brugðist við fjármálakreppunni.
Eftirlitsnefnd sveitarfélaga beitir þeirri aðferðafræði að bera saman árstekjur sveitarfélaganna við skuldir sem eru til margra ára t.d. vegna leigugreiðslna og lífeyrisskuldbindinga, og kemst að þeirri niðurstöðu að staðan sé alvarleg. Það skekkir hins vegar myndina að eftirlitsnefndin tekur ekki tillit til eigna sveitarfélaganna en þær hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á heildarmyndina. Eignir sveitarfélaganna skapa í mörgum tilvikum tekjur eða þær er hægt að selja til að standa undir afborgunum framtíðarskuldbindinga.
Svo dæmi sé tekið er hægt að kíkja á ársreikning sveitarfélagsins Voga en í fljótu bragði sýnist það dæmi líta þannig út að árstekjur eru um 570 millj.kr., skuldir eru 2,4 ma. króna sem lítur ekki vel út í samanburði eftirlitsnefndarinnar. Hins vegar á sveitarfélagið umtalsverðar eignir þar á meðal 1.6 ma. króna inni á bók og ekki fæst séð annað en það sveitarfélag komi til með að ná að standa í skilum með afborganir í framtíðinni.
Sveitarfélag getur haft ýmsar ástæður fyrir því að greiða ekki þegar í stað niður skuldir. Í yfirlýsingu sem Vestmannaeyjabær hefur sent frá sér vegna bréfs eftirlitsnefndar kemur fram að sveitarfélagið hafi ekki fengið að greiða niður ákveðin lán vegna þess að lánadrottinn hafi ekki viljað taka við greiðslu. Í öðrum tilvikum getur verið óskynsamlegt að greiða upp lán sem eru á hagstæðum kjörum.
Hér er ekki verið að fullyrða að ekki séu til sveitarfélög sem eru í alvarlegum vanda. Hins vegar gengur ekki að eftirlitsaðilar noti aðferðafræði sem skekkir heildarmyndina.
Ég tel mikilvægt að sveitarfélögin verði virkari í efnahagsstjórn landsins þar sem þær ákvarðanir sem teknar eru á borði sveitarfélaganna hafa mikil áhrif á hagstærðir. Sveitarfélögin þurfa að setja sér fjármálareglur sem takmarka útgjaldavöxt og skuldsetningu milli ára og þörf er á auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga enda bera báðir aðilar sameiginlega ábyrgð á efnahagsstjórn landsins.
Alvarleg staða sveitarfélaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.8.2010 | 17:48
Fagna stuðningi Marðar
Ég tel rétt að fagna sérstaklega stuðningi Marðar við að þingsályktunartillaga sú sem ég hef lagt fram í félagi við þau Gunnar Braga Sveinsson, Birgittu Jónsdóttur og Ásmund Einar Daðason verði tekin fyrir á þinginu í september. Ég hef margoft sagt að það hvort sem menn eru fylgjandi aðild Íslands að ESB eða andvígir inngöngu hljóti allir að vera sammála um að sú staða sem málið er komið í sé engum til framdráttar. Afneitun fjármálaráðherra í liðinni viku á því að bera ábyrgð á umsókninni er mjög athygliverð og kallar á frekari umræðu.
Hvet alla til að kynna sér efni tillögunnar og vonast til að mér, Merði og fleirum verði að ósk okkar.
Vill afgreiða tillögu um ESB-viðræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.2.2010 | 19:41
Sjálfbær sjávarútvegur án ríkisstyrkja (grein í Morgunblaði í dag)
Háskaleg hugmyndafræði
Stefna ríkisstjórnarflokkanna um að hefja ríkisvæðingu aflaheimildanna 1. september nk. byggir á háskalegri hugmyndafræði sem ekki hefur verið hugsuð til enda. Viðbrögð sveitarstjórnarmanna, útgerðarmanna, sjómanna og annarra sem starfa í greininni hafa ekki látið á sér standa og hafa öll verið á einn veg. Sú vísbending um útfærslu fyrningarleiðarinnar sem birtist í skötuselsfrumvarpi sjávarútvegsráðherra sem nú er til umfjöllunar á Alþingi staðfestir þá skoðun. Leiðin virðist vera sú að auka aflaheimildir þvert á ráðleggingar vísindamanna og þar með er sjálfbærni kerfisins fórnað. Arðseminni verður miðað við umræðuna af hálfu vinstri manna einnig fórnað líkt og strandveiðarnar sanna. Auðlindin í hafinu er takmörkuð og sagan segir okkur að þegar takmörkuð verðmæti eru til skiptanna verða alltaf einhverjir sem telja sig ekki fá næg gæði í sinn hlut. Úthlutun takmarkaðra gæða verður alltaf umdeild, sama hvaða kerfi er notað. Réttlæti og sátt er því ekki í augsýn, sérstaklega ekki á þeim forsendum sem vinstri flokkarnir leggja fram.Í hnotskurn
Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í Íslensku atvinnulífi og ein sterkasta stoðin sem við þurfum nú sem aldrei fyrr á að halda til að styrkja íslenskan efnahag til framtíðar. Við eigum sjálfbæran sjávarútveg sem skilar arði án ríkisstyrkja. Ég er stolt af þeirri staðreynd og legg til að við leyfum okkur að njóta þess að vera ábyrg fiskveiðiþjóð sem er öðrum fyrirmynd á þessu sviði.21.1.2010 | 18:19
Hin mikla sátt vinstri manna
Allt frá því fyrstu Íslendingarnir hófu líf sitt hér á landi eftir að hafa flúið ofríki evrópskrar yfirstéttar hafa landsmenn nýtt sér auðlindina miklu er býr í hafinu í kringum landið. Sjávarútvegur er grundvallarútflutningsgrein Íslands og skapar þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur og fólkinu í landinu mýmörg störf. Í hinum mikla hraða samfélagsins undanfarin ár má segja að við Íslendingar höfum fjarlægst rætur okkar og misst sjónar á því hvar og hvernig raunveruleg verðmæti verða til. Lykillinn að því að endurreisa efnahag landsins fellst einfaldlega í því að eyða minna og skapa meiri gjaldeyristekjur. Þar leikur sjávarútvegurinn lykilhlutverk.
Í ljósi þess vekur stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum, sem felst í fyrningu aflaheimilda í nafni réttlætis og sáttar, mikla athygli. Stefnan hefur framkallað mikla óvissu og óöryggi í greininni sem er síst það sem grundvallaratvinnugreinin þarf á að halda. Þá hafa sveitarstjórnir um allt land sent frá sér ályktanir gegn því að fyrningarleið verði farin og lýsa í því sambandi yfir áhyggjum vegna atvinnuástands í bæjarfélögunum og afkomu byggðanna. Ef horft er til viðbragða vinstri flokkanna vegna þeirra áhyggjuradda, sem eru engin, er ljóst að ekki á að hlusta á þá sem starfa í greininni og byggja alla sína afkomu á að starfsumhverfi hennar sé stöðugt. Hafa vinstri flokkarnir fjarlægst upprunann svo mjög að ekki liggi lengur fyrir í þeirra huga hver grundvallarundirstaða íslensks atvinnulífs er? Eða er þeim einfaldlega sama þó fjöregginu sé fórnað svo lengi sem stefnan komist í framkvæmd, sama hvað það kostar íslenskar byggðir?
Auðlindin í hafinu er takmörkuð og sagan segir okkur að þegar takmörkuð verðmæti eru til skiptanna verða alltaf einhverjir sem telja sig ekki fá næg gæði í sinn hlut. Úthlutun takmarkaðra gæða verður alltaf umdeild, sama hvaða kerfi er notað. Réttlæti og sátt er því ekki í augsýn, sérstaklega ekki á þeim forsendum sem vinstri flokkarnir leggja fram.
16.12.2009 | 15:01
Að skera niður (Grein í Morgunblaðinu í dag)
Allir landsmenn gera sér grein fyrir því að niðurskurður er óhjákvæmilegur hjá hinu opinbera. Hann verður erfiður og við eigum öll eftir að finna fyrir honum. Mikilvægt er að við þann niðurskurð verði beitt skýrri forgangsröðun og jafnræðis gætt. Fjárlagafrumvarpið 2010 sem er nú til meðferðar á Alþingi uppfyllir ekki framangreindar kröfur, því miður. Nauðsynlegt er að grípa til aðhaldsaðgerða til að ná tökum á ríkisrekstrinum. Ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki ráða við það verkefni og það mun hafa þau áhrif ef ekkert er að gert að niðurskurður komandi ára verður enn viðameiri en ef strax væri gripið í taumana.
Ýmsir hafa uppi þá skoðun að vernda þurfi heilbrigðiskerfið, menntakerfið og velferðarkerfið og vissulega væri ágætt ef það væri hægt en það er hins vegar ekki raunhæft. Skera þarf niður á öllum sviðum og þess verður að krefjast af öllum ríkisstofnunum að vel sé farið með þá fjármuni sem til skiptanna eru. Ég hef þá trú að ef rétt er á spilum haldið verði efnahagslægðin skammvinn þó að ýmsar efasemdir sæki að manni þegar litið er til vinnubragða ríkisstjórnarflokkanna við fjárlagagerðina.
Ég hef ávallt sagt að við niðurskurð í ríkisrekstri verði að taka mið af því fyrst og fremst að öryggi landsmanna sé tryggt. Þar á áherslan að mínu viti að liggja og verður í því sambandi að líta sérstaklega til verkefna lögreglunnar og gæta þess að ganga ekki of harkalega að þeirri grunnstoð öryggiskerfis landsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafa lagt fram ítarlegt nefndarálit þar sem vakin er athygli grundvallargöllum fjárlagafrumvarpsins. Tekjuhlið frumvarpsins er óklár, þegar hefur verið slakað á aðhaldskröfu milli fyrstu og annarrar umræðu um frumvarpið og ekki liggja fyrir ákvarðanir um hvort stofnanir hafi heimild til að flytja óráðstafaðaðar fjárheimildir milli fjárlagaára, svo nokkur dæmi séu tekin. Sjálfstæðismenn benda jafnframt á aðrar leiðir til tekjuöflunar, m.a. með skattlagningu séreignarsparnaðar, aflaaukningu auk þess að leggja til frekari sparnaðaraðgerðir. Ég vonast til þess að fjárlaganefnd taki ábendingar sjálfstæðismanna til alvarlegrar íhugunar og kasti þeim ekki fyrir róða. Við höfum ekki efni á því. Framtíðin hefur ekki efni á því.
14.12.2009 | 15:58
Að skera niður (grein í Eyjafréttum í sl. viku)
Niðurskurður í ríkisrekstri er nauðsynlegur til að ná megi tökum á því stóra verkefni að loka fjárlagagatinu. Allir Íslendingar átta sig á þeirri staðreynd. Hins vegar er ekki sama hvernig staðið er að slíkum niðurskurði. Mikilvægt er að reyna að skapa sem mesta sátt um aðgerðir en það verður helst gert með því að hafa skýra forgangsröðun, gæta jafnræðis og eiga samráð við hagsmunaaðila.Góðar samgöngur eru grundvöllur hvers samfélags og lykillinn að því að byggðin geti vaxið og dafnað ekki síst í atvinnulegu tilliti. Herjólfur er þjóðvegur Eyjamanna og gesta þeirra og því alvarlegt mál að uppi séu áform um að draga úr ferðatíðni hans. Ég kannast ekki við að loka eigi öðrum þjóðvegum landsins þrátt fyrir ástand efnahagsmála.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2009 | 00:58
Á heima í Fljótshlíðinni
Hafmeyjan komin á Akranes | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2009 | 11:18
Mun forsetinn beita sér fyrir því að stjórnvöld hætti að flækjast fyrir?
Forseti Íslands: Nýting orku auðveldar glímu við hrunið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |