Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gríðarleg samgöngubót sem þarf að nýta

Landeyjahöfn verður gríðarlega samgöngubót fyrir Íslendinga alla. Þar sem höfnin verður tekin í notkun næsta sumar er brýnt að fyrir liggi hið fyrsta áætlun ferjunnar í höfnina sem og gjaldskrá þar sem vart er hægt að halda heimamönnum í óvissu mikið lengur. Þá eru ferðamenn eru nú í óða önn að skipuleggja sumarfríið næsta sumar og ferðaþjónustuaðilar hafa engin svör um hvernig samgöngum verði háttað.

Ég trúi því ekki að samgönguráðherra ætli að gera ráð fyrir færri ferðum en upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir. Miðað við svarið er ekki búið að negla þá ákvörðun niður og við skulum sjá hvað setur. Held a.m.k. áfram að fylgja málinu eftir.


mbl.is Óvíst með fjölda ferða milli lands og Eyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var ekki sænska forystan lykilatriði fyrir Ísland?

Aðildarumsókn Íslands var samþykkt hér á Alþingi í sumar í hasti. Samfylkingarmenn vildu hraða málinu, eina máli flokksins, þar sem gríðarlega miklu máli skipti að Svíþjóð færi með forystu í sambandinu þegar okkar mál yrðu til umfjöllunar. Það gekk ekki eftir.

Í atkvæðagreiðslunni birtist þjóðinni grímulaus umskipti þingmanna VG til aðildarumsóknar. Í kosningunum kynntu frambjóðendur VG þá stefnu að flokkurinn legðist gegn aðild að ESB. Á daginn kom að lítið hald var í þeim yfirlýsingum.

Við erum á rangri vegferð í þessu máli. Hagsmunum þjóðarinnar er betur borgið utan ESB en innan. Kröftum þjóðarinnar og fjármagni er betur borgið í önnur verkefni en að láta draum samfylkingarinnar rætast. Eigum við ekki einfaldlega að draga umsóknina til baka?


mbl.is Ákvörðunar að vænta í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að drepa þjóð úr leiðindum?

Allt frá því að Icesave-málið kom fyrst inn á Alþingi í upprunalegri mynd á sumarþingi hefur stjórnarandstaðan staðið í baráttu við að knýja fram gögn í málinu. Upphaflega átti að keyra málið í gegn án þess að þing né þjóð fengju að sjá sjálfa samninganna sem liggja til grundvallar ríkisábyrgðinni. Því er ekki að leyna að þessi leyndarhyggja ríkisstjórnarflokkanna hefur sett sinn svip á málið frá upphafi og skapað tortryggni.

 

Ríkisábyrgð á Icesaveskuldbindingunum nemur háum fjárhæðum sem komandi kynslóðir koma því miður til með að standa straum af. Eftir að fyrirvörum Alþingis við ríkisábyrgðina hefur verið kastað fyrir róða með nýju viðaukasamningunum sem ríkisstjórnin hefur undirritað, getur sú staða komið upp að ábyrgðin verði óendanleg.

Til að standa straum af árlegum vaxtagreiðslum af Icesave þarf skatttekjur 79.000 einstaklinga sem er stór hluti allra launþega í landinu, líkt og Þór Sari hefur bent á hér í þinginu. Ekki er hægt að nálgast ákvörðun um slíkar ráðstafanir af léttuð og því gefur auga leið að þingmenn verða að hafa ítarleg gögn í höndum ætli þeir að styðja slíka ráðstöfun.

Ég á reyndar erfitt með að átta mig á rökstuðningi þeirra sem ætla sér að styðja frumvarp ríkisstjórnarinnar enda taka stjórnarliðar lítinn þátt í umræðunum. Ég giska þó á að stjórnarþingmenn ætli að fylgja forystu flokkanna – í blindni myndu einhverjir segja.

 

Við í stjórnarandstöðunni höfum verið ásökuð um að standa í málþófi hér í þinginu án þess að hafa nokkuð til málana að leggja og án þess að hafa upp á aðrar lausnir málsins að bjóða. Sumir ganga svo langt að segja okkur vera að drepa þjóðina úr leiðindum. Ég er algerlega ósammála slíkum málatilbúnaði og hvet þá sem fullyrða slíkt að horfa á umræðurnar. Af tvennu illu er betra að leggja langar og strangar umræður um eitt stærsta mál lýðveldissögunnar á þjóðina en að samþykkja óyfirstíganlega skuldabyrði til handa komandi kynslóðum að óyfirveguðu máli. Eða var einhver hér á þingi kosinn sérstaklega til að vera skemmtilegur?


mbl.is Fundað utan þingsals
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska sendinefndin situr fyrir svörum

Núna sitja fulltrúar íslensku sendinefndarinnar á fundi hjá áhugasömum fulltrúum samtakanna Nei til EU í Noregi. Mikill áhugi er á okkar málefnum hér úti og gott að finna fyrir þeim mikla stuðningi sem hér ríkir í okkar garð. Mikið er spurt um Icesave og tengsl þess máls við ESB aðildarumsóknarferlið. Jafnframt virðast menn sannfærðir um að áhugi ESB á mögulegri aðild Íslands snúist um áhuga á fiskimiðunum, náttúruauðlindum og aðgengi að nýrri siglingaleið um norðurhöf.

Norðmenn sammála mér um að atvinnustigið í ESB löndunum sé óásættanlegt og að aðild að ESB sé ávísun á að 7-10% atvinnuleysi festist í sessi.

Nei til EU eru greinilega mjög sterk og öflug samtök sem byggja á langri reynslu og eru rík af þekkingu.  

Sendi baráttukveðjur heim til félaga minna sem eru í miðjum slag í þinginu, matarlausir að því er mér skilst.


mbl.is ESB óttist að vera hafnað af Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirspurnum svarað í dag

Í dag munu ráðherrar svara fyrirspurnum frá þingmönnum um ýmis efni. Ég kem til með að fá svör við þrem spurningum í dag. Ég hef beint fyrirspurnum til menntamálaráðherra varðandi það hver sé staðan undirbúnings þess að setja á fót framhaldsskóla í Rangárþingi annarsvegar og í Grindavík hinsvegar en heimamenn hafa unnið að málum undanfarin misseri og brýnt að allir séu upplýstir um hver stefna menntamálaráðherra er.

 Þá hef ég beint fyrirspurn til samgönguráðherra varðandi Hornafjarðarflugvöll en mig langar að vita hvort unnið sé að því í ráðuneyti samgöngumála að Hornafjarðarflugvöllur fái aftur löggildingu sem millilandaflugvöllur með áherslu á ferjuflug og einkaflug.

    


Er 9,7% atvinnuleysi viðunandi? (Grein í Morgunblaði í dag)

Við Íslendingar stöndum í baráttu við að ná okkur upp úr efnahagslægðinni. Í því sambandi skiptir miklu máli að auka virðisaukandi starfsemi með því að stuðla að sköpun fleiri atvinnutækifæra og auka gjaldeyristekjur. Atvinnuleysi á landinu í september mælist 7,2% og er það óviðunandi ástand og við verðum öll að berjast gegn því að slíkt atvinnuleysi verði viðvarandi í íslensku samfélagi.

 

Mörgum þykir sláandi hvað nágrannaþjóðir okkar sýna stöðu mála hér á landi lítinn skilning. Hluti skýringarinnar á því er að leiðtogum flestra annarra ríkja þykir atvinnustigið hér einfaldlega ágætt miðað við hvað það er í heimalandi þeirra. Atvinnuleysi í ríkjum OECD mælist nú 8,6% en 9,7% á evrusvæðinu.

 

Hið mikla viðvarandi atvinnuleysi ESB þjóðanna vegur þungt á þeirri vogarskál sem fær mig til að telja hagsmunum íslensku þjóðarinnar betur borgið utan ESB en innan. Aldrei skulum við láta ESB-sinna eða leiðtoga ESB-landanna sannfæra okkur um að 9,7% atvinnuleysi sé eðlileg og viðvarandi staðreynd fyrir Íslendinga.


Er 7,1% atvinnuleysi ásættanlegt?

Það eru ólíkar fréttir vefmiðlanna mbl.is og visir.is um nýjustu tölur OECD um atvinnuleysismælingar. Á vísi er fréttin sett í það samhengi að á Íslandi mælist atvinnuleysi lægra en meðaltal atvinnuleysis í iðnríkjum Vesturlanda eða 7,1% hér en 8,6% að meðaltali í OECD löndunum. Og hvað með það? Viljum við Íslendingar sætta okkur við það að hér festist atvinnuleysi í sessi? Ég segi nei, alls ekki. Íslenskt samfélag er einfaldlega þannig að viðvarandi atvinnuleysi verður aldrei ásættanlegt. Sú staðreynd að um 10% atvinnuleysi er norm í ESB löndunum segir okkur að  okkar samfélag er gerólíkt því Evrópska. Sú staðreynd er ein af þeim þyngstu á vogarskálinni í afstöðu minni gegn ESB aðild Íslands.  Hluti af því skilningsleysi sem nágrannaþjóðir okkar sýna okkur og stöðu mála hér á landi er að þeim finnst atvinnustigið hér einfaldlega ásættanlegt, því það væri það í þeirra heimalandi. Við skulum ekki láta ESB sinna eða leiðtoga ESB landanna segja okkur að 8,6% atvinnuleysi sé eðlileg og viðvarandi staðreynd.

Fréttin af visi.is: 

Færri atvinnulausir á Íslandi en að meðaltali í iðnríkjum

Atvinnuleysi á Íslandi mælist undir meðaltali atvinnuleysis í iðnríkjum Vesturlanda, samkvæmt nýjustu tölum frá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD. Hlutfall atvinnulausra á þriðja ársfjórðungi var 7,1 prósent á Íslandi, en til samanburðar var meðaltalið í öllum þrjátíu ríkjum OECD 8,5 prósent, samkvæmt samræmdum mælingum. Innan Evrópusambandsins var atvinnuleysið enn hærra, eða 9,1 prósent. Mest mælist atvinnuleysi á Spáni, eða 18,9 prósent, og næstmest á Írlandi, eða 12,6 prósent. Á hinum Norðurlöndunum er atvinnuleysið meira bæði í Svíþjóð og í Finnlandi en á Íslandi, um 8.5 prósent í hvoru landi, en minnst er það í Noregi, um þrjú prósent. Í Bandaríkjunum voru 9,6 prósent vinnufærra manna án atvinnu.

 


mbl.is Atvinnuleysi mælist 8,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Suðurnesjamenn

Það var vaskur en eilítið votur hópur sem gekk frá Vogaafleggjara að Kúagerði í gær. Gangan sóttist vel og vinna hins þverpólitíska undirbúningshóps  til fyrirmyndar. Ræða Páls Pálssonar sem talaði fyrir hönd atvinnulausra hafði mikil áhrif á viðstadda enda ljóst að atvinnumissir hefur gríðarleg áhrif á allar aðstæður þeirra sem fyrir verða sem og á aðstandendur þeirra. Samfélag sem glímir við mikið atvinnuleysi líkt og Suðurnesin gera þarf á því að halda að íbúarnir standi saman. Samstaða einkennir svo sannarlega baráttu Suðurnesjamanna og ég er sannfærð um að baráttan mun skila árangri. Takk fyrir samveruna í gær, við skulum vinna bug á atvinnuleysinu!


mbl.is Vilja samstöðu með Suðurnesjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar óskir

Ég óska Friðrik til hamingju með formennskuna og jafnframt velfarnaðar í starfi. Þórði óska ég alls hins besta á nýjum vettvangi. Mikil vinna hefur farið fram undanfarna mánuði hjá okkur Sjálfstæðismönnum varðandi skuldastöðu heimilanna og höfum við m.a. fundað með fulltrúum frá Hagsmunasamtökum heimilanna til að fara yfir málin og þakka ég hér með kærlega fyrir það samráð. Hef ég kynnst bæði Þórði og Friðrik í þeirri vinnu.

Ég tel bestu leiðina til lausnar á skuldavanda heimilanna vera þá að fulltrúar allra flokka auk fulltrúa hagsmunasamtaka setjist saman niður til að kortleggja stöðuna og finna lausnir. Nú hefur verið lögfest sú skylda félagsmálaráðherra að kalla slíka nefnd saman og vonast ég til þess að nefndin verði skipuð hið fyrsta. Við skulum ekki láta þetta mál kljúfa þjóðina.


mbl.is Nýr formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vík og Skógar í dag

víkufjaraRenndi austur í Vík í Mýrdal í morgun og kíkti á aðstæður í fjörunni en ágangur sjávar er gríðarlega mikill og hafa um 200 metrar af fjörunni horfið í sjó sl. 50 ár. Ég verð að segja að mér brá þegar ég kom niður í fjöru þar sem mikið hefur gengið á landið frá því ég kom þangað síðast. Í 15 ár hefur verið vitað að ráðast þurfi í gerð varnargarða í fjörunni. Skipulagsvinnu er lokið og verið er að leita að grjóti í garðana. Hins vegar er fjármagn ekki tryggt, en að mínu mati er brýnt að ráðist verði í garðana hið fyrsta. Kíkti jafnframt upp á Sólheimaheiði til að skoða aðstæður þar sem grjótnámið mun að öllum líkindum fara fram. Jarðfræðingurinn sem stjórnar leitinni er sá hinn sami og fann grjótið í Landeyjahöfn og hef ég því fulla trú á að leitin skili góðum árangri.

Að því loknu brenndi ég í Héraðsskólann í Skógum þar sem fram fór málþing í tilefni af 60 ára afmæli Byggðasafnsins í Skógum. Á málþinginu var m.a. farið yfir sögu safnsins og framtíðarhorfur þess. Þórður Tómasson safnstjóri var í aðalhlutverki á málþinginu enda er saga safnsins samofin sögu Þórðar. Elvar Eyvindsson sveitarstjóri Rangárþings eystra afhenti Þórði "Atgeir Gunnars Hámundarsonar", sem er viðurkenning frá sveitarstjórn fyrir einstakt framlag til samfélagsins. Þá var frumsýnd heimildarmynd um safnið í Skógum þar sem Þórður lýsir ýmsum munum á safninu. Frábær dagur og gott að sjá og heyra þann mikla hug sem er í fólki gagnvart framtíð safnsins og starfsemi í kringum það.

Í beinu framhaldi af málþinginu var Safnahelgi á Suðurlandi formlega opnuð í Samgöngusafninu. Karlakór Rangæinga sló í gegn með frábærri framkomu og boðið var upp á sunnlenskar veitingar. Viðamikla dagskrá Safnahelgarinnar má nálgast hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband