10.10.2009 | 10:14
Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar komin í leitirnar
(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag)
Á sumarþingi hef ég ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum reynt að fá fram hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur í orku- og atvinnumálum. Umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra hafa þar talað í kross. Þó hefur komið fram að mikilvægt sé að fjölga störfum í landinu.
Grímunni kastað
Grímunni er loks kastað með ákvörðun iðnaðarráðherra um að framlengja ekki viljayfirlýsingu um álver á Bakka sem og úrskurði umhverfisráðherra að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum. Allt er gert til að stöðva það að fleiri álver verði að veruleika hér á landi. Það er stefna ríkisstjórnarinnar.
Óvissan enn aukin
Það ætti ekki að þurfa að taka það fram, hversu brýn þörf er á atvinnuuppbyggingu á Íslandi einmitt nú. Erlendir fjárfestar hafa sýnt mikinn áhuga á því að koma að ýmsum verkefnum hér á landi sem tengjast flest orkufrekum iðnaði. Ákvarðanir ráðherranna tveggja þýða að langþráðum atvinnutækifærum er í besta falli frestað en í versta falli kastað á glæ. Enn er aukið á óvissuna varðandi atvinnutækifæri til framtíðar.
Að byggja upp
Verkefnið sem liggur fyrir er að endurreisa íslenskan efnahag. Atvinnulífið byggjum við upp með því að treysta grunnstoðirnar, byggja upp í orkufrekum iðnaði, nýta auðlindir landsins og skapa eðlileg skilyrði fyrir rekstur og atvinnulíf. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa þau skilyrði að atvinnulífið geti blómstrað en ekki að bregða fæti fyrir þau tækifæri sem í augsýn eru.
Í hnotskurn
Í orði skal fjölga störfum, á borði er tækifærum kastað á glæ. Það er atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:16 | Facebook
Athugasemdir
Þú stendur þig vel, Unnur Brá!
Ómar Bjarki Smárason, 10.10.2009 kl. 12:34
Takk Ómar Bjarki.
Unnur Brá Konráðsdóttir, 13.10.2009 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.