5.11.2009 | 21:50
Vík og Skógar í dag
Renndi austur í Vík í Mýrdal í morgun og kíkti á aðstæður í fjörunni en ágangur sjávar er gríðarlega mikill og hafa um 200 metrar af fjörunni horfið í sjó sl. 50 ár. Ég verð að segja að mér brá þegar ég kom niður í fjöru þar sem mikið hefur gengið á landið frá því ég kom þangað síðast. Í 15 ár hefur verið vitað að ráðast þurfi í gerð varnargarða í fjörunni. Skipulagsvinnu er lokið og verið er að leita að grjóti í garðana. Hins vegar er fjármagn ekki tryggt, en að mínu mati er brýnt að ráðist verði í garðana hið fyrsta. Kíkti jafnframt upp á Sólheimaheiði til að skoða aðstæður þar sem grjótnámið mun að öllum líkindum fara fram. Jarðfræðingurinn sem stjórnar leitinni er sá hinn sami og fann grjótið í Landeyjahöfn og hef ég því fulla trú á að leitin skili góðum árangri.
Að því loknu brenndi ég í Héraðsskólann í Skógum þar sem fram fór málþing í tilefni af 60 ára afmæli Byggðasafnsins í Skógum. Á málþinginu var m.a. farið yfir sögu safnsins og framtíðarhorfur þess. Þórður Tómasson safnstjóri var í aðalhlutverki á málþinginu enda er saga safnsins samofin sögu Þórðar. Elvar Eyvindsson sveitarstjóri Rangárþings eystra afhenti Þórði "Atgeir Gunnars Hámundarsonar", sem er viðurkenning frá sveitarstjórn fyrir einstakt framlag til samfélagsins. Þá var frumsýnd heimildarmynd um safnið í Skógum þar sem Þórður lýsir ýmsum munum á safninu. Frábær dagur og gott að sjá og heyra þann mikla hug sem er í fólki gagnvart framtíð safnsins og starfsemi í kringum það.
Í beinu framhaldi af málþinginu var Safnahelgi á Suðurlandi formlega opnuð í Samgöngusafninu. Karlakór Rangæinga sló í gegn með frábærri framkomu og boðið var upp á sunnlenskar veitingar. Viðamikla dagskrá Safnahelgarinnar má nálgast hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.